Sunday, August 13, 2006

Á þjóðvegi númer eitt

Skrapp í helgarfrí aðra helgina í janúar og keyrði norður í land. Þjóðvegur númer eitt er einn af mínum uppáhaldsvegum og ég nýt þess að fara hann. Ætla mér rúman tíma svo ég þurfi ekki að aka í hendingskasti og geti stoppað á völdum stöðum á leiðinni til að borða. Því miður fer þeim fækkandi stöðunum við þennan veg sem enn geta talist boðlegir og sumir eru dottnir svo út af sakramentinu að það hvarflar ekki að manni að koma þar við, ekki einu sinni í neyð. Einkagöngin undir Hvalfjörðinn gerðu út um Botnsskála og Ferstiklu og ég verð að viðurkenna að ég hef aðeins einu sinni farið fjörðinn eftir að þau voru opnuð. Þá gekk ég upp með Glym, alveg uppá topp, í mestu rigningu sem ég hef upplifað og var með nesti. Það reyndi því ekki á þjóðvegasjoppuskortinn í það sinn.
En nú var semsagt ákveðið að stoppa í Borgarnesi og borða kvöldmat.
Hyrnan varð fyrir valinu því þar höfum við borðað áður. Mér er hinsvegar til efs að við munum borða þar aftur eftir þessa máltíð og móttökurnar sem okkar litla fjölskylda fékk. Þrátt fyrir fámenni í salnum virtist allt vera í stresskasti og steik innan við afgreiðsluborðið og eftir að börnin höfðu lagt fram óskir sínar vildi ég spyrja frúna hvor kjúklingurinn í hitakassanum væri réttur dagsins og hvor væri hinn grillaði af matseðlinum því alls ekki var hægt að sjá það af útliti þeirra. “Bíddu” var svarið og ég vona að maddaman hafi haldið að ég væri næsti kúnni í röðinni og ekki í fylgd með þeim sem hún var að afgreiða þá stundina. Hún virtist átta sig og eftir að kjúllavafinn var leystur fengu allir afgreiðslu. Samlokurnar sem börnin vonuðust til að fá voru hinsvegar ekkert líkar þeim snifsum sem bornar voru á borð. Frosið brauð þarf að rista til að fela upprunann og svo má gjarnan vera eitthvað á milli sneiðanna til að þær standist inntökupróf í samlokuherdeildina. Annars er bara um að ræða tvær brauðsneiðar, aðra oná hinni. Um frönsku kartöflurnar ætla ég, kurteisinnar vegna, ekki að fjölyrða en það er ekki svona flókið mál að hita feiti og dýfa einhverju í hana svo vel fari. Sá kjúllinn sem kallaður var réttur dagsins var svosem ekkert óæti en ósköp var hann óspennandi greyið og sveppasósan/súpan sem drekkti öllu öðru á diskinum kom í veg fyrir að hægt væri að mynda sér skoðun á því. Við vorum ekki södd þegar við lögðum í ferðina aftur en nokkrum þúsundköllunum léttari. Baula datt út í fyrra, með svipaða falleinkunn og Hyrnan nú, svo við fórum þar hjá án frekari tafa. Framundan var dalurinn endalausi og enginn áningarstaður fyrr en í Hrútafirði því ég hef ekki séð lífsmark í Hreðavatnsskála síðan Sálin spilaði þar síðast.
Á Brú var í nokkur ár hægt að fá íslenska kjötsúpu sem aðeins átti sinn líka í kjötsúpunni á Möðruvöllum. Á báðum þessum stöðum var skylda að stoppa og borða súpuna góðu. Nú standa Möðruvellir einir eftir sem framverðir íslensku kjötsúpunnar því bragðlausa skolvatnið með kjöt tuttlunum sem í boði er innst í Hrútafirðinum stendur ekki lengur undir þeirri sæmdarnafngift. Svo er algerlega ólíðandi að þreytulegt og pirrað afgreiðslufólkið segi við þá fjóra sem bíða í röðinni að nú sé því miður búið að loka og þeir fái því ekki afgreiðslu. Staðurinn lokar auðvitað á áður tilgreindum tíma en þeir sem þegar eru komnir inn, og búnir að velja það af matseðlinum sem þeir treysta sér í, hljóta að eiga einhvern rétt á lágmarks kurteisi. Þar fækkaði stoppustöðunum um einn og ég er nokkuð viss um að þeir sem þarna voru reknir út koma aldrei aftur inn.
Það kvöldaði og því var ákveðið að prufa Staðarskála frekar á heimleiðinni að þessu sinni.
Ég veit ekki hvort það var hungrið eða hálkan sem olli óhappinu en á krossgötum Heggstaðarnes-afleggjarans misstum við stjórn á bílnum, þeyttumst 80 metra út af þjóðveginum og vorum aðeins hársbreidd frá banaslysi ofaní skurði. Hvorugur flutningabílstjóranna sem aðilar voru að atvikinu stoppaði til að athuga með þennan bíl sem svo skyndilega hlýtur að hafa horfið þeim sjónum. Hestamenn á vígalegum Nissan Pickup gerðu það hinsvegar og þakka ég þeim hér með aftur fyrir þá hjálpsemi. Ég keyri sjálfur aldrei framhjá óhappi eða slysi nema gefa því gaum og kanna hvort hjálpar sé þörf.
Eftir þessar hremmingar hlakkaði okkur sannarlega til að komast á Blönduós og fá hressingu í hinum nýja og vel auglýsta Esso-skála, Blöndu-skálinn sem er sunnan brúar er sennilega hættur starfsemi, allavega sjaldan hreifingu þar að sjá. Esso-skálinn nýi og flotti lokar klukkan 10 á kvöldin sama hvort er virkur dagur eða helgi. Vonbrigði! Og það í bæjarfélagi sem stendur á því fastar en fótunum að eiga allt sitt undir þjónustu við gest og gangandi. Ef þetta er til marks um hina ríku þjónustulund Blönduósinga þá verð ég ekki hissa þegar þeir færa þjóðveginn upp að Svínavatni og umferð um bæinn leggst af með öllu. Þá fá Blönduósingar kannski frið til að hvíla sig, blessaðir. Fyrir nokkrum árum var enn hægt að fá að borða á hótelinu gengt bakaríinu í gamla bænum. Það, eins og svo margt annað á Blönduósi, er liðin tíð.
Helgin leið hratt og þjóðvegur númer eitt laðaði og lokkaði með sínum blindhæðum og einbreiðu brúm. Já vel á minnst, einbreiðar brýr!!! Hvað er málið með þær? Er virkilega svona dýrt og tæknilega flókið að útrýma þeim? Hafa göng gegnum hóla í afskekktum, fámennum byggðarlögum virkilega forgang framyfir fjölfarnasta þjóðveg landsins? Eða er hann útundan af því hann á sér engan héraðstalsmann á þinginu sem lobbíar fyrir hans hönd?
Staðarskáli á leiðinni heim og enginn gestur í salnum. Frábært, þá getur kokkurinn virkilega gefið sér tíma, vandað sig og náð að rétta svolítið hlut dreifbýlisins í þessari óformlegu veitingastaðakönnun helgarinnar.
Við drenginn sem þarna stóð vaktina vil ég bara segja eitt eftirá; ef það er svona svakalega leiðinlegt í vinnunni þá átt þú að fara að gera eitthvað annað við sjálfan þig, vinur, og sama gildir um stelpuna sem ráfaði um gólfið og þóttist vera að þjóna til borðs. Staðarskáli er óhreinn, óaðlaðandi og illa skipulagður subbustaður og hlandstækjan sem leggur upp stigann úr kjallaranum, er það fyrsta sem tekur á móti manni við innganginn. Þarna vinna krakkar sem hafa engan áhuga á neinu sem viðkemur matseld eða þjónustu. Maturinn á þessum stað er virkilega vondur, jafnvel allt að því ógeðslegur og salurinn sem manni er ætlað að sitja í á meðan maður reynir að blekkja ofan í sig viðbjóðinn hefur ekki verið ryksugaður eða þrifinn með öðrum hætti síðan áður en “number one” var lagður bundnu slitlagi. Ætli skyldustopp langferðabíla nái ekki að halda ósmekklegheitunum á lífi enn um sinn en aðrir ferðamenn, sérstaklega þeir svöngu, ættu að hraða sér framhjá.
Á heildina litið er metnaðarleysi og fákeppni það sem einkennir matarholurnar við þjóðveg númer eitt, vesturlandsveg. Engu skiptir í mínum huga hvaða árstími er þegar þjónusta og matur er annarsvegar, ég borga sama uppsprengda verðið í janúar og júlí og geri kröfu um sömu gæði að vetri og sumri. Ef menn ætla hinsvegar að lifa á því að blekkja fávísa túrista á sumrin og segja svo við landsmenn að þeir geti étið það sem úti frýs hina níu mánuðina mega þeir mín vegna fara á hausinn. Ég mun framvegis smyrja mér nesti til að taka með í ferðina þegar ég ek þennan tiltekna hluta míns ástsæla þjóðvegar númer eitt.

1 Comments:

Blogger Ari said...

Rakst hér inn fyrir tilviljun á flakki mínu um netið. Mikið rosalega er ég sammála þér með vegasjoppurnar, við keyrum oft á milli Rek-Aey og erum farin að hafa með okkur nesti til að bókstaflega drepast ekki úr einhverjum sjúkdómi eftir heimsókn á svona stað.

6:22 AM  

Post a Comment

<< Home