Humarhúsið
Í einu fallegasta húsinu í Bernhöftstorfunni er veitingastaðurinn Humarhúsið og hefur verið þar síðan 1995. Á þessum stað er farin dálítið önnur leið í innréttingum og skreytingum heldur en á hinum veitingastaðnum í torfunni því hér er það einfaldleikinn og smekkvísin sem ræður. Sami stíll er á humarhusid.is, góðri heimasíðu veitingastaðarins. Hreint og hlýlegt er það sem mætir manni en heldur þótti mér kynlegt að standa í anddyri og ræða við móttakarann handan við þykk, hálffrádregin gluggatjöldin sem skilja innganginn frá salnum, svolítið eins og ég væri að sníkja að fá að koma inn. Þegar inn er komið blasir við einstaklega aðlaðandi salur með snyrtilega dekkuðum borðum og fáum aukahlutum. Ég var á báðum áttum þegar þjónninn vísaði okkur til sætis við borð milli tveggja sem þegar voru setin í salnum. Rétt er að það komi fram að þetta var á mánudagskvöldi og það frekar rólegu. Þegar leið á kvöldið áttaði ég mig hinsvegar á því að þarna hafði reynslan ráðið og staðsetning valin af mjög ásettu ráði. Okkur sem þarna sátum á þremur borðum leið fljótlega eins og staðurinn væri þéttsetinn og allir gátu slakað á og átt samtöl. Ef lengra hefði verið milli borða hefðu allir verið að hvísla og pískra og hver heimsókn þjónsins hefði orðið pínlega áberandi í þögninni. Svo er á hreinu að þjónninn hafði betri yfirsýn á borðin svona þétt og gat sinnt öllum nánast í einu, ég þurfti aldrei að bíða eftir aðstoð, hún var alltaf komin á sömu stundu, tækni sem “yngri” þjónar mættu tileinka sér og þeir ófaglærðu munu sennilega aldrei fatta. Ef ég ætti að finna eitthvað að þjónustunni þetta kvöld þá væri það ef til vill að helsti styrkur Humarhússins er um leið þeirra eini veikleiki. Sömu aðilar hafa haldið um stjórnartaumana árum saman og þjónninn okkar þetta kvöld hefur unnið þarna frá upphafi. Um leið og þetta gefur til kynna mikinn stöðugleika er svolítið eins og maður sé kominn inná þeirra yfirráðarsvæði. Þjónninn þjónar ekki heldur gengur um beina. Hreint og beint en ópersónulega, og já, aftur hafði ég á tilfinningunni að ég væri svolítið eins og að sníkja. Ekki þó í fjárhagslegum skilningi því Humarhúsið er ekki ódýr staður. En að matnum; ég hef víða farið og borðað mikið og fjölbreytt en á Humarhúsinu gerðist það ótrúlega að tvisvar sama kvöldið smakkaði ég nokkuð sem ég hef aldrei smakkað áður. Hið fyrra var forréttur, önd með shiso, mango og lime, alveg ótrúlega góður réttur. Tilfinningin, þó ekki bragðið, var eins og þegar maður setti edik í fyrsta sinn í munninn, alveg gersamlega framandi. Ég smakkaði líka humarsúpuna, einhverja þá bestu sem ég hef fengið hér á landi, en öndin sló allt út. Það yrði erfitt að toppa þessa byrjun. Humarveisla var í sigtinu og boðið var uppá “brot af því besta”, þrennskonar humar, grillaðan, með gratin sósu og kanadískan, sem er aðeins grófari en okkar. Á matseðli er talið upp salat og hvítlaukur sem meðlæti en á diskinum var auk þessa, stórundarleg hrúga af litlum, ljósleitum kúlum. Allskonar hugsanir kviknuðu um hvað þetta gæti eiginlega verið, hrogn einhvers óþekkts stórfisks eða stökkbreytt kúlulaga risahrísgrjón. Einn möguleiki var að bakatil í eldhúsinu væri illa launaður starfskraftur af erlendu bergi brotinn sem sæti daglangt og rúllaði kúlurnar úr deigi á borðinu, með fingurgómunum. Hann væri meira að segja orðinn svo fær í þessu að hann gæti rúllað tíu í einu, eina undir hverjum fingri. Á diskunum tveimur væri þá um eitt og hálft dagsverk af kúlum. Þessar kúlur voru hið síðara af því sem ég hef aldrei smakkað fyrr en þarna. Ég fékk að vita að þetta fyrirbæri er Israelskt couscous, passar ótrúlega vel með humrinum. Eins og ég óttaðist þá náði aðalrétturinn þó engan veginn að toppa forréttina og mér finnst ég þurfi að heimsækja Humarhúsið aftur vegna þess að þeir eiga að geta gert betur, humarinn er jú þeirra aðalmál. Með þessu drukkum við Alsace Pinot Gris, og Reserve Personelle er unaðslegt hvítvín, gullið og ilmandi. Kláruðum vínið á efri hæðinni þar sem er betristofa og þótt við værum ein þar var kveikt á öllum kertunum. Það gaf hlýlegt og rómantískt yfirbragð. Heldur þykir mér Humarhúsið vera í dýrari kantinum en það fylgir kannski því að vera í Torfunni. Jafngóðan mat og faglegri þjónustu er hægt að fá víða í borginni fyrir minni pening. Ég gef staðnum 3 stjörnur.
Þessi rýni birtist í Mannlífi mars ´06
Þessi rýni birtist í Mannlífi mars ´06
0 Comments:
Post a Comment
<< Home