Monday, November 05, 2007

Rauðará steikhús















“Rauðará steikhús góðan dag.” ” Góðan dag, áttu borð fyrir tvö í kvöld.” ” Já, klukkan hvað vilji’ði koma? “ ”Kl.9.“ ”Það væri betra ef þið kæmuð kl.hálf níu.“ ”Ha! Væri það betra? “ ”Já eldhúsið lokar kl.9 á sunnudögum.“ ”Við gætum kannski verið hjá ykkur rúmlega hálf.” ” Gott, en ég set pöntunina ykkar kl. hálf og þið athugið þá að eldhúsið lokar á mínútunni 9.”
(Í upphafi kvöldsins):“Seinast þegar ég kom hér inn var hér Líbanskur veitingastaður, alveg orginal með músik og magadansmær og alles.” ”Já er það? Ég er einmitt að æfa magadans en það var samt ekki ég, ég er samt búin að nefna það við eigandann hvort ég ætti ekki að taka það sem aukadjobb hér á staðnum, ég tek ekki mikið fyrir.” (örlitlu síðar):“Við veljum Wolf Blass Yellow label með þessum mat.” “Já það er æðislegt, reyndar finnst ekki öllum það. Ég smakkaði í fyrsta sinn í gær President series, með svarta miðanum, það er meiriháttar!” (og seinna sama kvöld): “matarstellið er fallegt” “já, finnst ykkur það ekki!” “En steikurnar okkar eru báðar kaldar og bökuðuð kartöflurnar ekki nema rétt volgar.” ”Já..! Það skeður stundum!”
(og enn seinna sama kvöld):“Ansi er kalt hér í koniaksstofunni. Getur verið að gluggi sé opinn?” “Nei nei, en í morgun bilaði miðstöðvarofn og fór á fullt, við rétt náðum að slökkva á honum áður en kviknaði í.” ”Nú, er kaffið og koníakið þá á afslætti af því gestirnir þurfa að sitja í úlpunum svo slái ekki að þeim?” “Þú verður að ræða það við Stefán, hann er miklu harðari í þessu en ég.” (Stefán???) (og svo aðeins seinna, reyndar við aðra gesti sem einnig hímdu í frostkaldri stofunni, en hátt og snjallt svo allir viðstaddir heyrðu): “Jæja, þá er hér kominn fjórfaldur!!!”

Ég hefði líklega ekki lagt samskipti okkar á minnið, hvað þá sagt öðrum frá, ef þau hefðu átt sér stað á matstofu. En þar sem þessar setningar voru sagðar í einu af dýrari steikhúsum höfuðborgarinnar stuðuðu þær mig. Hvað varð um takk fyrir, gjörið svo vel, verði ykkur að góðu og fleiri slíka frasa. Og jafnvel afsakið, sem hefði átt mjög vel við þegar ljóst var að dinnerinn var misheppnaður og koníaksstofan orðinn að kæliklefa.
Nokkrum vikum áður ætlaði ég að bjóða fjölskyldunni út að borða. Ég hringdi í steikhúsið við Rauðarárstíg og var tjáð að ekki væri sérstaklega gert ráð fyrir börnum á veitingastaðnum, ekki væri neinn barnaseðill og ekki eldaðir minni skammtar. Ég er eldri en tvævetur og skil fyrr en skellur í tönnum, börnin voru ekki velkomin á staðinn. Gott og vel, hverjum rekstraraðila hlýtur að vera í sjálfsvald sett hvaða fólki hann hleypir inn á staðinn sinn. Við fórum bara annað með peningana okkar í það sinn.

En nú vorum við semsagt komin, barnlaus, til að prófa steikhúsið. Húsnæðið er hlýlegt, innréttingarnar hafi ekki mikið breyst þó staðurinn hafi skipt um hlutverk og eigendur. Þar sem svo knappur tími var til stefnu (eldhúsið lokar nefnilega kl.9 á sunnudögum) ákváðum við að taka tilboði dagsins. Það myndi líka án efa gefa góða mynd af því sem staðurinn er stoltastur af, steikunum. Humarsúpan á undan var þolanleg, þó aðeins í saltara lagi. Humarinn sem fylgdi með var hinsvegar ofeldaður og seigur og brauðbollurnar líklega beint úr frystinum, forbakaðar. En það voru steikurnar sjálfar sem ollu mestum vonbrigðunum. Nautalundin var meir og safarík og af litnum að dæma, alveg hárrétt elduð. En hún var köld. Fyrstu bitarnir voru reyndar spenvolgir en sú velgja dugði ekki máltíðina á enda. Svipað var með lambafilleið, það var kalt og spikröndin líka. Bökuðu kartöflurnar voru heldur volgari en kjötið en alls ekki nógu heitar og kólnuðu hratt. Meðlætið var athyglisvert, salatrifrildi hellt úr poka og brokkolí/blómkálstvenna, svona eins og fæst á litlum bakka í Bónus. Hefði ekki verið eins áberandi hallærislegt ef kokkurinn hefði skorið hausana í tvennt. Og svo paprikustrimlar svissaðir á pönnu. Tvennskonar sósur fylgdu með en þær voru óáhugaverðar. Tíramísu, varla meir en frómas á bleittum tertubotni og súkkulaðikaka með Baylies-ís náðu ekki að redda kvöldinu. Maturinn var kaldur og þar af leiðandi algerlega óboðlegur og tilboðinu um að taka hann aftur og “skella í ofninn” var að sjálfsögðu hafnað. Við kláruðum úr glösunum í koníakskæliklefanum en treystum okkur ekki til að sitja þar yfir kaffibolla vegna kulda. Og svo er ég ekkert viss um að ég vilji að allir viðstaddir fái að vita hvað ég panta margfaldan. Í lokin borgaði ég svo uppsett verð fyrir máltíðina en fékk bara einverskonar “shit happens!” þegar ég benti á handvömmina. Vandvirkni er stórlega ábótavant og metnaðarleysið virðist vera algert. Stúlkurnar sem gengu um beina voru líka allt of kammó fyrir stað í þessum verðflokki.
Venjulega gef ég einkunn í lok greinar sem þessarar en ég held að Rauðará steikhúsi væri enginn greiði gerður með því.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home