Monday, January 15, 2007

Sjávarkjallarinn


Ég þurfti aðeins að leita til að finna Sjávarkjallarann, þó rata ég vel í miðbænum. Engar glannalegar merkingar eru utan á húsinu sem vísa manni á þennan rómaða veitingastað, maður verður bara að spyrja til vegar.
Aðgengi að staðnum er í gegnum lobbý á túrista-information centrúmi sem gangsett var fyrir nokkrum árum, og svo niður tröppur að gömlum hlöðnum kjallara. Strax þar á þröskuldinum virkar aðkoman dularfull og spennandi. Sumir fá “innilokara” en mér þótti gott að koma inn þar sem lágt er til lofts og lýsing dempuð. Gólfin eru lögð steinum eins og þeim sem kjallarinn er hlaðinn úr, tilfinningin dálítið eins og að koma ofaní dýflissu í gömlum kastala. Fiskabúrið undir barnum er svo efni í aðra grein í allt öðru tímariti.
Fremra rýmið er móttaka og lítill setukrókur úr plexigeri og plasti, nett undarlegur, með eldrauðum leðurklæddum svefnbekk. Salerni eru einnig staðsett í þessu rými og þegar mest er að gera um helgar geta myndast biðraðir við þau.
En matsalurinn innar í kjallaranum er málið. Mér datt í hug lína úr ljóðinu Sigtryggur vann, Þursaflokksins; “Hér er stofan ný, hún er öll tjölduð og þakin með blý”. Einstaklega aðlaðandi og smekklegt umhverfi. Uppfullt af góðum tilfinningum. Maður finnur strax hvað öllum, starfsliði og gestum, líður vel þarna inni. Fáum sögum fer af útsýninu, enda er kjallarinn niðurgrafinn eins og kjallarar eru gjarnan. Þess vegna heita þeir “kjallarar”.

Hvert borð var setið og allt á fullu, þó varð ég ekki tilfinnanlega var við umferð þjónanna um salinn. Þeir liðu um lókalið átakalaust og öruggt. Ég þurfti aldrei að skima eftir þjóninum og allar hans innkomur voru einstaklega fagmannlega útfærðar. Samt var hann líka kurteis og þægilegur. Stúlkan sem tók á móti okkur síðast og afgreiddi fordrykkina mætti taka hann sér til fyrirmyndar. Henni þótti ekki nógu gaman í vinnunni.
Matseðillinn virkar svolítið asískur við fyrsta yfirlestur en þó er hann það ekki alfarið. Sumir réttanna bergmála austrið fjær, sezuan, tobanjan, su-miso, satay og tandoori en í eldhúsinu eru íslenskir meistarakokkar, Matreiðslumaður ársins 2004 og nýbakaður matreiðslumaður ársins 2006.
Dark shadow laxinn og Four seasons, fjórir fiskréttir urðu fyrir valinu sem ágæti dagsins. Á undan fengum við óvænt skemmtilegan forrétt í miniútgáfu af gömlu glerkrukkunum með hespulokinu, þið munið. Eitt-núll fyrir kokkunum, búið að leggja línurnar strax í upphafi máltíðar. Eldamennska verðlaunakokkanna stóð fyllilega undir væntingum, allir fiskréttirnir fjórir voru góðir en laxinn stóð uppúr sem langbestur þetta kvöld. Seinna prófuðum við óvissuferð samsetta úr nokkrum ólíkum réttum og þó meistararnir hafi hvorugur verið á vakt það kvöld virtist það ekki koma að sök. Ef eitthvað var síðra það kvöld var það helst að biðin milli rétta var vandræðalega löng svo tognaði verulega úr máltíðinni. Ef fjölgar svo í salnum að erfitt er að ráða við það þarf líka að fjölga í staffinu.
Hlutverk borðbúnaðar er stundum vanmetið, nauðsyn sérkenna og samspils, hver rödd þarf að heyrast en kórinn verður samt að hljóma. Sjávarkjallarinn fer einum lengra í þessum efnum. Mikil vinna og natni er lögð í útlit og áferð réttanna og maður getur ekki annað en hlakkað til að smakka. Maturinn var frábær í þessi þrjú skipti sem við heimsóttum staðinn og hann var fallegur á diskinum löngu eftir að hann var búinn. Reyndar máttu diskarnir gjarnan standa örlitla stund, eftir máltíðina, svona eins og til að treina ánægjuna. Verðið er örlítið hærra en sumstaðar en kúnninn fær líka örlítið meira. Álagning á vín er hér, eins og víða, alltof há en gott úrval er á seðlinum.
Sjávarkjallarinn er meðal bestu veitingahúsa borgarinnar og fær fimm stjörnur.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home