Friday, January 04, 2008

Lúxus

Þrír sólarhringar, 600 km. í bíl, þrjú hágæða hótel í rammíslenskri sveitarómantík, hvað er hægt að hugsa sér betra í stysta sumarfríi aldarinnar?
Ég var hræddur um að þetta yrði sprengur, kappakstur á þjóðvegi númer 1 og rallýakstur á tengivegunum að hótelunum sem ég ætlaði að heimsækja, stress oní hamagang oní læti. Engin hvíld og lúxusinn aðeins mynd í kynningarbæklingi. Mikið er gott að hafa stundum rangt fyrir sér. Fyrir það fyrsta eru hótelin 3, Hótel Rangá, Hótel Glymur og Hótel Búðir alls ekki svo langt frá höfuðborginni, dálítið sitt í hverja áttina en samt innan seilingar. Svo eru þau sannarlega í þeim lúxusklassa sem auglýstur er. Og landið sem ber fyrir augu í akstrinum er svo dásamlega fallegt að ferðin sjálf verður líka frí.

Hótel Ranga var fyrst í röðinni. Bjálkahús, á bökkum Eystri-Rangár, sem nýverið var stækkað um heila álmu og ný svíta tekin í notkun, ein sú flottasta sem sést hefur á landinu og þó víðar væri leitað. Öll herbergi á hótelinu eru með sjónvarpi, þau nýjustu með flatskjá en svítan er með komplett 5.1 heimabíói og auka flatskjá við hjónarúmið. Heitir pottar eru á veröndum sem snúa að ánni, einn fyrir hverja álmu og herbergin sem snúa að Heklu hafa nuddbaðkör. Svítan er með nuddpott á miðju gólfi gengt tvöföldum dyrum, frönskum, með útsýni á Eiríksjökul. Herbergin eru búin fallegum og þægilegum húsgögnum og rúmt er um mann, hvort heldur í venjulegum herbergjum, delux-herbergjum að ekki sé talað um í svítunni frábæru sem er tæpir 80 m2.
Veitingastaðurinn er í þeim gæðaflokki að hann er verður sér ferðar úr bænum þó maður ætli ekki að gista, sem reyndar er súrt fyrir bílstjórann því Rangá skartar vínseðli sem vart á sinn líka á nokkrum veitingastað á landinu, yfir þrjátíu hvítvín og á fimmta tug rauðvína jafnt frá gamla og nýja heiminum auk kampavína, freiðivína og rósavína í ýmsum verðflokkum. Sérstakur konunglegur vínseðill er í boði, valinn af Carli Gustav XVI Svíakonungi. Úrval sterkra drykkja og líkjöra er á svipuðum nótum.
Fiskisúpan var frábær og gaman að prófa carpaccio úr kálfi, strúti og kengúru. Forréttirnir gáfu fyrirheit um spennandi kvöldverð. Aðalréttir voru “Veisla úr hafinu”, sandhverfa og skötuselur ásamt gaddakrabba, og “Surf and Turf”, lamb og humar sem staðurinn er frægur fyrir. Báðir réttirnir voru einstaklega góðir og fallega fram bornir. Annað spennandi sem bíður næstu heimsóknar er dádýr, hreindýr eða elgur og dúfa. Þjónustan er með alþjóðlegu yfirbragði, þjónarnir koma frá ýmsum löndum og í þ. m. 10 tungumál töluð auk Íslensku. Allt staff er sérlega prófessional, indælt, þægilegt og afar kurteist. Umhverfi Hótel Rangár skartar magnaðri fjallasýn þar sem Heklu, drottninguna sjálfa og Eiríksjökul ber við himinn. Kyrrð sumarnæturinnar var aðeins rofin af stöku andvaka fugli sem söng að sólarupprásinni, bílaumferð og sírenuvæl borgarinnar víðs fjarri.

Hótel Glymur í Hvalfirði státar af einhverju fallegasta útsýni nokkurs hótels á landinu. Hvort heldur horft er inneftir, úteftir eða þvert yfir fjörðinn, allstaðar blasir við fegurð þessarar mögnuðu sveitar. Hótelið er með nokkru öðru sniði en maður á að venjast, hér er það nálægðin og einlægnin sem hrífur. Innanstokksmunir, handrið, rúmgaflar innréttingar og smærri listmunir, allt er handunnið í samstarfsverkefni nokkurra arkitekta og listamanna. Tilfinningin er næstum eins og að ganga inn á heimili, svo persónulegur og sérstakur er stíllinn í allri sinni fjölbreitni. Tilvísanir í Hallgrím Péturson skáld er að finna hér og þar og Saurbæjarkirkja er ávallt í miðri mynd, neðar í brekkunni. Öll herbergi á Glym eru svokallaðar mini-svítur, á tveimur hæðum, með útsýni yfir fjörðinn. Að auki eru í boði þrjár svítur þar af ein stór. Hvert herbergi hefur sitt tema í húsbúnaði og listmunum. Sameiginleg rými eru setustofa og lobbybar og stór salur ætlaður fyrir fundi og ráðstefnur, búinn öllum nauðsynlegum tæknibúnaði. Hótel Glymur er lokaáfangi þjónanema frá evrópu en farsælt samstarf er milli hótelsins og nokkurra skóla á meginlandinu. Veitingastaður Glyms er opinn og bjartur, skreyttur listmunum í sama stíl og hótelið. Fiskisúpan, karrýlöguð, var góð byrjun á máltíðinni og eins og flest annað á hótelinu hefur hún sinn eigin stíl, með silkimjúka áferð. Stolt staðarins er samsettur seðill, “Taste of Glymur”, brot af því besta. Við fengum nautasteik, lambaskanka, skötusel í orly degi, krabba og reykta hörpuskel. Nautasteikin stóð uppúr, hárrétt elduð og fínlega skorið ferskt grænmeti átti sérlega vel við. Á eftir þessum fjölbreytta og vel útilátna aðalrétti kom vart annað til greina en ís-soufflé með teguila og súkkulaðiterta hússins, punkturinn yfir i-ið. Það var við hæfi, þar sem móttaka er í höndum eiginkonunnar og matseldin í höndum eiginmannsins, að þjónn kvöldsins væri sonurinn. Honum fórst það hlutverk afar vel úr hendi.

Hótel Búðir er rúmlega steinsnar frá höfuðborginni. Kyngimagnaður Snæfellsjökullinn hefur áhrif á allt og alla sem hingað koma, hvort sem menn trúa því eða ekki. Búðahraun, fjallgarðurinn, ströndin og kirkjan, allt umhverfi hótelsins er sveipað dulúð. Hótelrekstur á þessum stað á sér langa hefð og þegar gamla húsið varð eldi að bráð árið 2001 kom ekki annað til greina en endurreisn. Nýja húsið er afar falleg bygging, tvö hús tengd í miðju þar sem er móttaka og setustofa. Virðing fyrir því liðna og væntingar um glæsta framtíð er það sem greinilega var lagt upp með í upprisunni því sama notalega stemningin mætir manni nú og gerði forðum þó umgjörðin sé ögn nýtískulegri. Flatskjáir, myndspilarar, vekjaraklukkur og netsamband er staðalbúnaður sem nútímaferðalangar búast við en á Búðum bregður svo við að farsímasamband er í veikara lagi, þvílík blessun. Það þýðir þó ekki að menn séu sambandslausir við umheiminn því símar eru á öllum herbergjum, tengdir landlínunni. Hingað kemur fólk ekki síst til að forðast ys og þys og til að borða góðan mat. Veitingastaður hótelsins er frægur langt útfyrir landsteinana og hefur haldið sessi sínum gegnum tíðina. Dæmi er um stönduga bissnissmenn utan úr heimi sem létu skutla sér í þyrlu frá höfuðborginni til þess að snæða kvöldverð á Búðum og héldu svo tilbaka sama kvöld. Kvöldverður okkar hófst á silungatartar, virkilega góðum, og humar þrennu, ekki síðri. Milliréttur barst síðan óvænt á borðið, skötuselslifur með súkkulaði, skondin samsetning. Aðalréttir voru síðan skötuselur, lambarifjur og skankar. Fiskurinn var hæfilega eldaður og bragðgóður en lambið var frábært, bleikt í miðju, meirt og safaríkt. Súkkulaðikaka hússins innsiglaði svo máltíðina, snædd í glerskálanum með útsýni yfir bryggjuna og ósinn. Starfsfólk hótelsins er indælt og þægilegt, þjónninn okkar átti ekki minnstan þátt í hve máltíðin var vel heppnuð og greinilegt var á stemningunni í matsalnum að aðrir gestir voru ánægðir líka.
Ýmis afþreyging er í boði á utanverðu Snæfellsnesi og gönguferðir um nágrenni hótelsins duga vel til að hlaða batteríin. Stutt er í jökulinn, á Arnarstapa og að Hellnum og Bárðar saga Snæfellsáss bergmálar í hverjum kletti. Á komandi vetri verður framhald á hinum stórskemtilegu morðgátuhelgum á hótel Búðum sem notið hafa mikilla vinsælda. Hlutverkum er úthlutað og sjálfur Hercule Poirot stýrir atburðarásinni í anda Agöthu Christie, hið sanna kemur ekki í ljós fyrr en í helgarlok.





Samanburður á jafn ólíkum hótelum og þeim þremur sem heimsótt voru í þessu stutta fríi er svolítið eins og að bera saman epli, appelsínur og banana. Hvert þeirra hefur sína kosti og sérstöðu þótt öll eigi þau þó sameiginlegt að vera í hæsta gæðaflokki. Umhverfi þeirra er ólíkt, sléttur landeyja, hlíðar Hvalfjarðar og andstæður láglendis og fjalla yst á Snæfellsnesi. Aðbúnaður og þjónusta á þessum lúxushótelum er með því besta sem í boði er í dag og veitingastaðir þeirra eru frábærir. Áður en ákvörðun er tekin þarf að vega og meta vandlega hvað það er sem verið er að sækjast eftir því sérhver gestur hefur ólíkar þarfir og gerir mismunandi kröfur. Einkunnagjöf fyrir hina ýmsu þætti eins og þjónustu, aðbúnað og umhverfi litast fljótt af smekk og væntingum hvers og eins.
Reynslu þessa þriggja sólarhringa mætti ef til vill taka saman á eftirfarandi hátt;

Hótel Rangá:
Umhverfi – 7, berangurslegt og flatt, gróðursetning og sáning myndi bæta, fjallahringurinn telur.
Herbergi – 10, til algerrar fyrirmyndar, með því besta sem í boði er. Annar aðbúnaður – 8, sameiginlegir heitir pottar eru ekki lúxus.
Þjónusta – 10, fagmannleg og hnökralaus
Veitingasalur – 10, hlýlegur og rómantískur.
Matur – 9, virkilega góður
Vínseðill – 10, svona sér maður bara “erlendis”.
Verð, gisting – 19.800 f. tveggja manna herbergi með morgunmat.
Verð, kvöldverður - 19.000 (með flösku af góðu víni)

Hótel Glymur:
Umhverfi – 9, einhver fallegasti fjörður landsins út að upplýstu stóriðjuþorpinu.
Herbergi – 8, einstaklega smekkleg en lítið gólfpláss.
Annar aðbúnaður – 8, hlýleg setustofa og bar með sjálfsafgreiðslu, algert traust. Sameiginlegir heitir pottar eru ekki lúxus, þrátt fyrir einstakt útsýni.
Þjónusta – 8, helst til persónuleg á stundum.
Veitingasalur – 7, full mikill “salur”, opinn í báða enda, feng shui myndi hjálpa mikið hér.
Matur – 7, nautið bar af en sjávarfangið var síðra.
Vínseðill – 6, hér er hægt að gera betur
Verð, gisting – 23.900 f. tveggja manna herbergi með morgunmat
Verð, kvöldverður – 21.000 (með flösku af góðu víni)

Hótel Búðir:
Umhverfi – 8, dulmögn og nálægð við Snæfellsjökul telur, hraunið líka.
Herbergi - 6, hér vantar aðeins uppá “kósýið”
Annar aðbúnaður – 8, afar hlýlegar sameiginlegar stofur.
Þjónusta – 8, lipur og þægileg.
Veitingasalur – 8, þægilegur en þolir illa að vera þétt setinn.
Matur – 10, besti matur ferðarinnar.
Vínseðill – 9, frábær vín í boði og gott úrval sterkra drykkja á bar.
Verð, gisting – 19.900 f. tveggja manna herbergi með morgunmat
Verð, kvöldverður – 23.500 (með flösku af góðu víni)

Sjálfur fer ég á “lúxus” hótel fyrst og fremst til að gista og upplifa rómantík. Þeim sem vilja fara á hestbak, í sleðaferðir, gönguferðir eða veiði bendi ég á heimasíður hótelanna því þar er að finna úrval margskonar afþreyingar. Hótel Rangá, Hótel Glymur og Hótel Búðir standast kröfur og uppfylla þarfir jafnvel þurftafrekustu lúxusgesta.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home