Tuesday, November 28, 2006

Silfur, Hótel Borg

Eðlilega eru ekki allir á sama máli um ágæti breytinganna á veitingasalnum í Hótel Borg, en mér finnst þetta svolítið töff. Er reyndar enn á báðum áttum með betrekkið í Jóhannesarstofu en arininn þar er sannarlega “showpiece”. Og svo er hann opinn að aftan bæði og fram. Stærra eldrými er á þeirri hliðinni sem snýr inn í veitingasalinn og þar logaði bíómyndalegur “special effects” eldur úr gasi. Frekar flott. Hvorki eru myndir né annað skraut á veggjunum en ljósakrónurnar og sagaður steinninn á arninum og súlunum bæta þann skort fyllilega, jafnvel þó einhverjir mæri Indiana Jones propsið sem hafði hangið þarna áratugum saman og safnað ryki. Frétti reyndar að til stæði að koma því dóti öllu saman fyrir í lobbíi hótelsins, svo ekki fer það langt. Betrekkið og steinninn eru síðan snilldarlega bergmáluð í borðhaldinu sem smádúkur undir köldum réttum og hnefastór platti undir heitum. Hipp og kúl.
Það var fjölmennt á Silfrinu þetta föstudagskvöld og ég skrifa kauðslegar móttökurnar við dyrnar á það. Ef þjóninn hinsvegar lætur alla hanga frammi á gangi í aulalegri bið í byrjun kvölds þá skora ég á Silfursmenn að laga þann þátt. Kannski væri ráð að hafa “butler” í anddyrinu til að taka á móti gestum. Það væri flott. Ef til vill komum við bara inn um bakdyrnar án þess að átta okkur á því, en þarna var samt áður gengið inn í hinn fornfræga Gyllta sal og síðar, til að komast á Skuggabarinn sáluga. Þangað inneftir var förinni þó ekki heitið að þessu sinni.
Á matseðlinum er gesturinn varaður við því að allir réttirnir séu “í forréttastíl” og sá varnagli er ekki sleginn að ástæðulausu. Ókunnugur gæti fornermerast þegar á borðið fara að streyma skammtar sem varla eru uppí nös á ketti og sumum gæti þótt verðlagið eftir því vera heldur í hærri kantinum. En þá er líka bara hálf sagan sögð. Eftir yfirlestur og samtal við þjón var ákveðið að fylgja meðmælunum á matseðlinum og fara í einskonar óvissuferð. Kokkarnir velja matinn, ég hef alltaf verið til í smá áhættu! Annar þjónn kom og bauð okkur að velja vín en spurði svo hvort við vildum treysta sér fyrir þeirri ákvörðun. Ég var efins en sló til, hafði enda enga ástæðu til að vantreysta þessum þjóni. Og vísast myndi hann vera miklu nær um hvað færi vel saman, matur og vín, í þessu ferðalagi sem til stóð. Svolítið varð ég hissa þegar hann birtist svo með kampavínsflösku, þær veigar skyldu fara saman með fyrstu forréttunum. En maður mótmælir ekki settum kúrs, skipstjórinn ræður. Heldur stóð þó tæpt að fyrsti rétturinn næði í restina á freiðinu, smá lögg var eftir svo það rétt slapp. Reyndar fannst mér pínulítið óþægilegt hve margir þjónar skiptust á að þjóna okkur, maður nær mikli minni contact við sinn. En þjónustan á Silfrinu er góð. Maturinn raðaðist á borðið og það fer ekki á milli mála að það er gaman í eldhúsinu. Ég hef sagt að fátt gleðji mig eins og þegar sést að einhver hefur vandað sig. Hver einasti réttur sem borinn var á borð þetta kvöld, og þeir voru margir, var listaverk. Allt spilaði saman hreinan hljóm, útlit, framsetning og bragð. Alltof langt mál væri að telja upp og meta hvern rétt fyrir sig svo ég læt nægja að segja; allir réttirnir voru frábærir, hver á sinn hátt og þeir voru allir skemmtilegir sem er ekki svo lítið afrek. Dúfan var sigurvegari kvöldsins í keppninni “besti rétturinn”. Vínin, hvítur þjóðverji í fyrri hálfleik og rauður fransmaður í þeim síðari, pössuðu alveg ótrúlega vel við hinn fjölbreytta matseðil. Velti samt fyrir mér, af og til, þessu kampavíni - var ekki alveg að fatta það. Tónlistin, sem heyrðist ágætlega úr nýja hátalarkerfinu, var undarleg og nett stressandi en átti líklega að vera það. “Plötusnúður”, þið vitið, allir halda að það sé flott. “Live” klassa “act” hefði verið miklu meira kúl hér.

Silfrið heppnaðist og meir að segja frekar vel. Fullt hús stiga hefði steinlegið ef ekki hefði borið einn skugga á. Traust er dýrmætt og vandmeðfarið og mér þótti mitt örlítið misnotað að þessu sinni. Þótt tilefni borðhaldsins hafi verið að fagna áfanga efast ég um að við hefðum pantað 9000 króna kampavínsflösku með forréttunum hefðum við sjálf valið vínin. Þarna sætti þjónn lagi en hefði að sjálfsögðu átt að nefna við okkur að freiðið væri tvöfalt dýrara en venjuleg vínflaska. Þetta kom okkur í opna skjöldu þarna í restina og setti örlítið leiðan blett á annars fullkomna matarupplifun. Þó ég vilji halda að þetta hafi átt að vera liður í “special treatment”, sem ég reyndar borga svo sjálfur fyrir.
Silfrið verðskuldar háa einkunn, jafnvel fimm stjörnur en fær fjórar. Ég held einni eftir í pant fyrir flöskuna dýru. En kvöldið var vel heppnað.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home