Hrútafjörðurinn

Hvorugur veitingaskálinn við Hrútafjörð er að gera vel. Þjónustulund er þeim ókunnugt hugtak og vandvirkni í eldamennsku er nokkuð sem er greinilega allt of mikið vesen. Almenn kurteisi og hlýlegt viðmót getur gert heilmikið fyrir veitingastað sem er á hverfanda hveli en rekstraraðilar skálanna tveggja kjósa að uppáleggja sínu fólki hortugheit og fruntagang í samskiptum við ferðamenn. Ekki svo að skilja að ég hafi eingöngu mína eigin reynslu að styðjast við heldur varð ég líka vitni að samtölum starfsfólks og gesta meðan ég átti minn stutta stans. Þrifnaði er stórkostlega ábótavant á báðum stöðunum þó keyri um þverbak á öðrum þeirra. Hlandstækja, er orðið sem ég skrifaði og enn hefur mér ekki komið nákvæmara orð til hugar. Því skrifa ég aftur hér; það var svo megn hlandstækja, sem tók á móti okkur við innganginn, að strax þar hefðum við átt að hætta við. Um það sem á eftir fylgdi má lesa á öðrum stað hér á síðunni. (archives, janúar ´06 -"Á þjóðvegi númer eitt"). Engin afsökun þykir mér í því að búið sé að ákveða að færa "number one", þannig að hann muni í framtíðinni liggja útmeð firðinum vestanmegin og við hið nýja vegstæði verði reistur skáli sem leysa muni núverandi stað af hólmi. Má þá alls ekki þrífa þennan og viðhalda honum þangað til? Spyr sá sem á að skilja peningana sína eftir þar. Veitingastaðir og skálar "útá landi" lúta, hvað sem þeim finnst sjálfum um það, sömu lögmálum og staðir í þéttbýli. Eða ættu í það minnsta að gera það. Vondur matur, hrokafull og heimóttarleg þjónusta og almenn óþrif eru ekki góð meðmæli með neinum veitingastað, hvar sem hann er á landinu. Gagnrýni er sett fram til ábendingar, "að rýna til gagns", jafnt fyrir rekstraraðila og viðskiptavini þeirra.
0 Comments:
Post a Comment
<< Home