Monday, November 13, 2006

Brekka, Hrísey

Hrísey! Einangrunarstöð fyrir innflutt gæludýr. Galloway nautabúskapur á áttunda og níunda áratug síðustu aldar. Sjálfstæðisyfirlýsing endurnýjuð árlega. Hellulagðar götur. Dráttavélar. Alli Bergdal, Hallgrímur Helga og að sjálfsögðu; ... Árni Tryggva. Þessi næststærsta eyja landsins býr yfir galdri sem ég hef ekki kynnst eins áþreifanlega annarstaðar. Tíminn er ekki til eins og hann þekkist á meginlandinu og þegar ég spurði Nestorinn hvort hann vissi hvað klukkan væri spurði hann mig hvort ég vissi hvaða dagur væri. Allt tempo er hægara og allir eru ekkert að flýta sér.
Í rúma tvo áratugi hefur veitingahúsið Brekka verið rekið í eyjunni og varð frægt fyrir nautasteikurnar sem ekki fengust annarstaðar. Mér þótti það reyndar alltaf skondin einangrun því svo tók maður kjötið með sér tilbaka innvortis og enginn gerði athugasemd við það. En einangruninni hefur verið aflétt og eru hálfskoskar beljur nú víða á landinu. Brekka er þó enn á sínum stað í reisulegu húsi sem á sínum tíma var eitt stærsta hús eyjunnar. Saga hússins er samofin sögu plássins alveg frá því það var byggt með handafli á árunum 1932-34 en það gerði Tryggvi Jóhannson, faðir Árna leikara. Á heimasíðu veitingastaðarins, www.brekkahrisey.is má lesa sögu hússins auk matseðla og annars fróðleiks. Veitingastaðurinn er opinn yfir sumartímann og opnaður sérstaklega fyrir hópa á öðrum tíma ársins. Gisting er í boði og er verðið hóflegt. Miklu styttri skreppur er út í eyju en mætti halda, kannski eru allar gubbuferðirnar í Herjólfi svona sterkar í í minningunni að ef maður heyrir orðin ferja og eyja í sömu andránni hrökkva allar varnir í gang. En óttinn er ástæðulaus því ferðin er stutt og skipið þægilegt. Nærsveitamenn hafa þarna skemmtilegan valkost í veitingahúsaflórunni við Eyjafjörð.
Matseðillinn er fjölbreyttur og er plankasteikin líklega þekktust. Piparsteik og kjúklinga-bringa með quacemole sósu eru einnig í boði af kjöti og svo eru fjórir fiskréttir á sérréttaseðli. Samlokur, hamborgarar og panini með pepperoni eða skinku, pizzur með óvenjulegu áleggi og úrval baksturs, kanilsnúðar, kleinur og rabbabarakaka með rjóma. Sá sem finnur ekki eitthvað sem hann langar í af seðlinum er einfaldlega ekki svangur. Plankasteikin er annaðhvort lamba rib-eye eða nautalund og smakkaði ég lundina. Greinilegt var að kjötið hafði verið meðhöndlað af kunnáttumanni því það var svo meirt að það bráðnaði í munninum. Steikingin var nákvæmlega eins og um var beðið og stenst þessi steik fyllilega samanburð við það sem best gerist í höfuðborginni. Saltfiskkókossteik á kartöflumauki með sætri plómusósu er góður réttur og óvenjulegur. Humarsúpan á undan var með örlitlum koníakstón og var flauelsmjúk og bragðgóð. Svolítill galsi er í pizzunum á Brekku og eiga þær allar sameiginlegt að álegg er ekki sparað og ekki heldur ostur. Kjúklingapizza með rauðlauk, fetaosti og jalapeno er góð og einnig hvítlaukspizzan með osti og grænum pipar. Stúlkurnar sem ganga um beina í Brekku eru úr röðum heimamanna, þær eru brosmildar með ríka þjónustulund og hafa þægilega nærveru. Súkkulaðikakan, sem við fengum á eftir, lokaði máltíðinni fullkomlega og það var varla hægt að finna pláss fyrir einn “irish”. Það tókst þó og ekki sé ég eftir því. Þarna fékk ég eitthvert besta írska kaffi sem ég hef fengið ofan Ártúnsbrekku.
Gott útsýni er uppá meginlandið, heim að Árskógssandi og Dalvík og inn eftir Svarfaðardal og afar róandi var að fylgjast með þokunni læðast niður hlíðar fjallana á Tröllaskaga, næstum eins og að horfa á málningu þorna. Já, tíminn er sannarlega afstæður. Ég gef Brekku þrjár stjörnur og mæli með því að fólk prófi helgarferð í Hrísey.

Rýni þessi birtist, lítillega breytt, í Mannlífi, september ´06. Hér gefur að líta "orginalinn".

0 Comments:

Post a Comment

<< Home