Sunday, August 13, 2006

A Hansen Hafnarfirði

Húsið sem kennt er við A Hansen í Hafnarfirði hefur gengið í gegnum mörg og ólík tímabil á langri ævi sinni, en það var byggt árið 1880. Ef timbrið gæti talað yrði frásögnin án efa býsna skrautleg. Í húsinu hefur ýmislegt verið brallað; bólstrun, sjoppa, leiktækjasalur, æfingaaðstaða fyrir hljómsveit og hljóðstúdíó, svo eitthvað sé talið af þeirri starfsemi sem átt hefur athvarf í þessu fornfræga húsi í gegnum tíðina. En síðustu 20 árin eða svo hefur þarna verið veitingahús á neðri hæð og pöbb á þeirri efri. Sá er reyndar alræmdur. Restaurantinn niðri hefur hins vegar haldið sínu í gegnum tíðina og þótt hann hafi ekki alltaf trónað á toppi vinsældarlistanna hefur maturinn jafnan þótt ágætur og sannarlega er þetta eini veitingastaðurinn í bænum sem stendur undir nafni. Svo hefur “limousine” verið til taks hin seinni ár og margir eiga ljúfar minningar frá rúntinum á leið í matinn. Ég ákvað að skella mér í steikarferð á þriðjudagskvöldi, vegna þess að ég hafði ekki komið lengi og líka vegna þess að ég hafði heyrt að enn hefðu orðið eigendaskipti með nýjum kokkum og öllu tilheyrandi.
Ekki hefur verið ráðist í neinar meiri háttar breytingar á húsnæðinu eða innréttingum og skrauti, enda kannski ekki ástæða til. Þó ber að fagna því að hinn kauðslegi sófi, sem tók á móti manni áður, er horfinn og í hans stað komin borð og stólar. Það sem það gat verið pínlegt að sitja í leðrinu og sötra fordrykk yfir matseðli meðan beðið var eftir borði, 80 sentimetra frá parinu sem var að klára eftirréttinn sinn. Nú er gestum, sem þurfa að hinkra, boðið upp á efri hæðina og þar í setukrók fjarri matargestum, eins og vera ber. Og svo er þessi fáránlega bensínstöð sem dómineraði allt útsýni horfin yfir móðuna miklu og nú er virkilega hægt að njóta þess að horfa út yfir miðbæinn og höfnina. En við vorum komin til að borða. Við smökkuðum nauta-carpatio í forrétt, snyrtilegt á diskinum en dálítið bragðdauft og óspennandi. Fyrsta bragð kvöldsins ætti að hrífa og auka á eftirvæntinguna en þetta naut gerði það tæplega. Þá tók við næstum klukkutíma löng bið sem var orðin undir það síðasta dálítið dularfull því við vorum einu gestirnir í salnum. En góðir hlutir gerast hægt. Plankasteikin hefur lengi verið tromp staðarins og svo er enn, að því er virðist. Nauta og lamba tvenna var frábær. Kjötið eldað af virðingu og meðlætið ferskt og örlítið svissað á pönnu. Sósan var alveg sérlega vel heppnuð og að sjálfsögðu var bökuð kartafla með þessu. Eikarplankinn gefur þessu öllu keim þótt ekki væri nema fyrir ilminn af honum og það hve sérstakt það er að borða mat af spýtu. Piparsteikin var ekki eins mögnuð en kannski var ég bara óheppinn með bita. Piparblandan á kjötinu var bragðgóð og piparsósan líka en einhverjar sinar voru að pirra mig í lundinni. Ef við hefðum ekki þurft að bíða svona lengi eftir aðalréttinum hefði ég beðið um nýja sneið. Meðlætið með þessari steik var einnig gott. Með þessu var drukkið ástralskt Rosemount Shiraz. Santa Digna Cabarnet Sauvignon frá Chile hafði þó verið pantað en reyndist ekki tiltækt. Alltaf þykir mér betra ef mér er sagt strax hvað af seðlinum er ófáanlegt svo ég sé ekki að láta mig langa í það sem ekki er til. Reyndar er tímabært fyrir staðinn að endurskoða bæði mat- og vínseðilinn. Þjónustan þetta kvöld var látlaus og allt umhverfi staðarins er þægilegt. Gamlar ljósmyndir af húsunum í bænum eru fallegar á veggjunum og undirstrika vel anda liðins tíma sem svífur dálítið yfir öllu á þessum snyrtilega veitingastað. Ef ég ætti að tína til kvörtunarspörð þá væri það helst að stöðugur umgangur fólks á pöbbinn illræmda á efri hæðinni er mjög truflandi fyrir þá ró sem ríkir í salnum niðri. Kannski væri hægt að breyta inngangi þannig að þessar tvær rekstrareiningar gætu þrifist í svona mikilli nálægð hvor við aðra. Ég gef staðnum 2 stjörnur.


Þessi rýni birtist í Mannlífi maí ´06

0 Comments:

Post a Comment

<< Home