Sunday, August 13, 2006

Þrír Frakkar

Á fyrstu hæð í íbúðarhúsi inni í miðjum Þingholtunum minnir aðkoman að Þremur Frökkum á suma þessa frægu litlu restauranta í stórborgum erlendis. En þar endar samlíkingin. Þegar inn er komið býðst gestum að setjast inn í lítið hliðarherbergi, hlýlegt og notalegt, eða út í sólskálann viðbyggða, kaldan og mötuneytislegan, auk salarins. Ég ákvað að láta þjóninn velja okkur stað og hún vísaði okkur hiklaust út í skálann, á agnarsmátt tveggja manna borð og mátti varla vera að því að hinkra á meðan við fengum okkur sæti. Svo, þegar stund var liðin án fordrykkja, kom önnur til að taka pöntun. Skrítið þetta að bjóða manni ekki strax drykk til að sötra yfir lestri. Reyndar var ekki til á barnum það sem talið var upp á seðli, hvorki fordrykkurinn sem okkur langaði í né vínið sem við völdum eftir þó nokkrar vangaveltur því seðillinn er fjölbreyttur. Sérvöldum vínum Úlfars sjálfs var lýst fyrir okkur sem annaðhvort alltof “sætum” eða alltof “súrum”, veit ekki hvort Úlfar er sammála því. Lauksúpan sem ég smakkaði fyrst þarf að hverfa strax af matseðli Þriggja Frakka, svo gjörsamlega misheppnuð sem hún var. Dökk og dimm voru orð sem komu í hugann meðan ég reyndi að krafla burtu öllu brauðinu sem hafði verið troðið ofan á í þeirri von að undir niðri leyndist næg súpa til að vera marktæk í smakkprófi. Smásletta var í botninum og laukdreggjarnar sem lágu þar í voru ofeldaðar og ansi legnar. Alls ekki nógu vandað og í raun algert klúður á stað sem hefur jafn gott orðspor og þessi. Sannarlega byrjaði þessi heimsókn ekki vel. Ég vildi fyrir alla muni prófa hvalkjöt áður en birgðir þrýtur og það býðst ekki lengur. Þrennskonar hráefni var borið á borð og auka hrúgurnar tvær voru hrár túnfiskur, ágætur, og reyktur lax sem á litla samleið með hvalkjötinu að “japönskum sið” sem ég hafði pantað. Hvalurinn sá var hreinasta sælgæti og ég undrast þá snilld að geta borið fram hrátt það sem búið er að geyma í frosti árum saman, gott ef ekki hartnær áratug, og það virkar svona ferskt. Aðalrétturinn skyldi vera fiskur í samræmi við orðsporið. Og núna vorum við að dansa. Það er fyrir þetta sem staðurinn er frægur. Við fengum alveg hreint frábærlega matreiddan karfa og skötusel, lystuga og spennandi rétti. En eins og þjónustan stuðaði okkur þá gerðu rifna kálið og forsoðnu kartöflurnar það líka. Nenna menn virkilega ekki að hafa fyrir því sem er hæglega helmingur þess réttar sem borinn er fram? Er það svo að matreiðslumönnum finnist einhver minnkun að því að skera ferskt grænmeti og útbúa sjálfir kartöflur sem hæfa matnum? Staður sem er eins umtalaður og þessi getur hvorki leyft sér að vera með kokka né framreiðslufólk sem sinnir sínu starfi með hálfum hug. Alveg er ég viss um að þegar meistarinn er sjálfur á vakt eru gestirnir ekki afgreiddir með því áhugaleysi sem við upplifðum þetta sunnudagskvöld. Breytir engu hvort fiskurinn var rétt eldaður eða ekki. Ætli maður að upplifa “the dining experience” hlýtur þjónusta, viðmót, umhverfi og stemmning að skipta jafnmiklu máli og maturinn. Sé eitthvert eitt þessara atriða ekki í lagi er upplifunin fyrir bí. Maður jafnvel sér eftir þeim peningum sem það kostar að borða á viðkomandi stað og kvöldinu sem átti að vera tilbreyting frá hversdagsleikanum. Þrír Frakkar fá tvær stjörnur fyrir hvalinn og fiskana, annað var ekki í lagi.

Þessi rýni birtist í Mannlífi apríl ´06

0 Comments:

Post a Comment

<< Home