Friday, January 04, 2008

Fiskimarkaðurinn


Í heimsóknum mínum á einn nýjasta veitingastað borgarinnar, Fiskimarkaðinn við Aðalstræti, rifjaðist upp gamalt grín úr mínum vinahópi. Ef stemmning datt niður eitt augnablik hjá okkur félögunum eða eitthvert skens var að klikka var gjarnan sagt “nú er leiðinlegt”. Brást þá ekki að hlátur setti að mönnum við frasann og þá var einatt fylgt fast á eftir með því að segja: “nú er aftur gaman”. Og þá var hlegið enn meir. Árum síðar er enn hægt að hlægja að þessum einföldu frösum þegar menn hitta á rétta augnablikið. Meðan ég naut matarins og þjónustunnar á Fiskimarkaðnum, og reyndar lengi eftir að máltíðunum var lokið og ég kominn heim til mín var ég enn að hugsa “já, nú er aftur gaman!”

Fiskimarkaðurinn er í húsinu að Aðalstræti 12. Á efri hæð er móttaka gesta og “koníaksstofa” með fallegum innréttingum en aðalmatsalurinn er á neðrihæð. Þar geta gestir ennfremur setið við matarbar að austurlenskum sið og fylgst með kokkunum að störfum því opið er inn í eldhúsið. Þægilegt andrúmsloft tekur á móti manni þegar niður er komið og þó rýmið sé ekki íkja stórt er rúmt um hvert borð. í fyrri heimsókn okkar varð “Tasting menu”, úrval af því besta, fyrir valinu og ég mæli óhræddur með þeirri rússíbanaferð, einkum ef nokkrir eru saman að njóta. Þvílíkt og annað eins! Menn mega vera ansi matvandir og heimaaldir ef þeir geta ekki haft ánægju af því að láta spila á skilningarvitin eins og gert er með þessum samsetta matseðli á Fiskimarkaðnum. Réttirnir eru bornir fram, hver á fætur öðrum, en þó ekki örar en svo að sérkenni hvers þeirra fá að njóta sín. Eldamennskan og framsetningin “leitar í austur”, eins og sagt er á smekklegum matseðlinum, og áberandi er hve mikil natni er lögð í öll smáatriði. Maður gat næstum séð fyrir sér Japanska geishuna vökvandi lótusblómin ástúðlega svo öruggt væri að þau væru fullkomin í fegurð sinni á diskinum. Útlit, ekki síður en ylmur og bragð skiptir greinilega miklu máli á þessum stað enda byrjar kvöldverðurinn á hinu sjónræna. Fátt veldur mér vonbrigðum eins og þegar matnum hefur verið skellt á diskinn minn og hrúgunni svo drekkt í sósu eins og því miður kemur ennþá fyrir sumsstaðar. Slík hryðjuverk þyrfti að uppræta með öllu. Matur, sem færður er upp eins fallega og sá sem borinn er fram á Fiskimarkaðnum beinlínis kveikir hjá manni löngunina til að upplifa og njóta. Síðan spillir ekki fyrir að eldamennskan er hér í hæsta gæðaflokki.

Fyrri heimsóknin kallaði á aðra og þá var rýnt í matseðilinn. Forréttir úr eldhúsi eru fjórir í boði og humarmisósúpan freistaði. Hún kom þægilega á óvart og var frábær. Af “Raw” barnum völdum við blöndu af hráfiski; nigiri, maki og sashimi, sem var svakalega flott og afar listaukandi. Lax Teryaki, marineraður svartþorskur frá Víet-Nam og djúpsteiktur skötuselur og skötuselskinnar með geitaosti voru aðalréttir kvöldsins. Laxinn var mildur og naut fiskbragðið sín vel með basil og balsamic. Þorskurinn svarti er ekki okkar guli eftir litameðferð, eins og ég hélt, heldur allt annar fiskur, sömu ættar, virkilega bragðgóður. Skötuselsrétturinn var eini réttur hússins sem ekki sló fullkomlega í gegn hjá okkur en líklega er um að kenna misjöfnum smekk manna fyrir kinnum og geitaosti. Framandi réttir eins og þessi eru spennandi og geta fallið vel inn í samsetta matseðla þó þeir, í sumum tilvikum, séu full sérstakir til að bera einir uppi heila máltíð. Eftirréttasimfónían “Fish market premium” er með þeim kræsilegri sem sést hefur lengi og þó maður hafi, þegar hér var komið við sögu, verið orðinn mettur vel hvarf sú værð eins og dögg fyrir sólu frammi fyrir glæsileika og fjölbreytni þess sem boðið var uppá sem niðurlag máltíðarinnar. Þjónustan á Fiskimarkaðinum er í sama gæðaflokki og matseldin. Kurteisin og fagmennskan í fyrirrúmi en þægileg viðvera og fumlaus vinnubrögð hvers og eins geislandi af öryggi þess sem veldur verki sínu. Vínþekking þjónanna og þekking á réttum hússins lýsir einlægum áhuga þeirra og miklum metnaði. Verðlagning á Fiskimarkaðnum er á líkum nótum og á öðrum “betri” veitingahúsum borgarinnar og staðurinn stendur fyllilega undir því.
Ég gef Fiskimarkaðnum við Aðalstræti verðskuldað fimm stjörnur.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home