Friday, August 10, 2007

London étin á sex dögum.....

Sumir gætu haft þá skoðun að í Frakklandi steiki menn lynghænur betur, Í Þýskalandi sé að finna besta súrkál veraldar og á Ítalíu sé pasta næstum guðdómlegt en það breytir ekki þeirri staðreynd að London er matarhöfuðborg Evrópu og hana nú! Þar má líka finna alla framantalda matergerð og miklu, miklu meira. Þegar spurt er í London; hvar eigum við að borða í kvöld, væri nær að spyrja; hvað langar okkur að borða í kvöld, því óvíða í hinum siðmenntaða heimi er að finna fleiri og fjölbreyttari veitingastaði en í þessari stórkostlegu borg. Kóreanskt eða Kínverskt, Indverskt eða Grískt, Arabískt eða Ungverskt, hvaðeina sem manni getur dottið í hug á sinn fulltrúa einhverstaðar í London.
Allflestir veitingastaðir sem ég kom inná voru hreinir, með fallega innréttað rými, hlýlegt og kurteist starfsfólk og ilmuðu af góðum mat en sama þumalputtareglan gildir við val á stöðum í borginni eins og annarstaðar, ef staðurinn er skítugur með óaðlaðandi aðkomu, áhugalaust eða dónalegt staff og ef þar er vond lykt ætti maður að leita víðar.

Ítalski fjölskyldustaðurinn Biagio niður við Thames, við hliðina á Embankment túbustöðinni, er ágætur viðkomustaður pasta-unnandans. Hér má fá góðan Ítalskan mat í skemmtilega yfirdrifnu Ítölsku umhverfi, minnir í óhófi sínu um margt á veitingastaðinn Ítalíu við Laugaveg. Í nokkrum heimsóknum á 10 ára tímabili hefur þessi vinalegi, litli veitingastaður alltaf skilað sínu. Kannski ekki ástæða til að ferðast langar leiðir til að sækja heim en viðkomu virði ef svengd sækir að og maður er staddur í nágrenninu.
6 stig fyrir góðan, Ítalskan mat.
7 stig fyrir skemmtilega Ítalska þjónustu
7 stig fyrir ofskreytt en hlýlegt Ítalskt umhverfi
6 stig fyrir verðlagningu í samræmi við gæði.
Samtals 26 stig. Góður Ítalskur staður að detta inná.

Cafe Des Amis rétt hjá Covent Garden er frábær Franskur veitingastaður, með franskan samtímamatseðil og í kjallaranum er stórkostlegt úrval osta og betri vína. Styrkur veitingastaðarins liggur í frábærri matseld, snyrtilegu umhverfi, sanngjörnu verði og sérlega professional staffi. Allir sem komu að borðinu okkar meðan á máltíðinni stóð voru afar kurteisir en um leið hlýir og indælir. Við innganginn er móttökustjóri sem gerir ekkert annað en taka á móti gestum, koma þeim fyrir á rétta staði og láta þeim finnast þeir vera velkomnir strax við dyrnar. Maturinn er ævintýralega góður, fínlegt jafnvægi í kryddnotkun og eldun. Gott úrval vína og skemmtilegur eftirréttaseðill. Fínn veitingastaður í þröngri hliðargötu rétt við markaðinn fræga.
8 stig fyrir vandaða matseld.
8 stig fyrir faglega og vingjarnlega þjónustu.
8 stig fyrir snyrtilegt, modern umhverfi.
8 stig fyrir verð versus gæði.
Samtals 32 stig. Vandaður veitingastaður með góðan mat og góða þjónustu.

Lengi vel hefur Indverski staðurinn Delhi Brasserie í Soho verið í uppáhaldi. Heldur hefur fjarað undan honum í seinni tíð þótt hann sé enn boðlegur og mættu bæði kokkar og þjónar aftur fara að vanda sig líkt og þeir gerðu árum saman. Staðurinn er við hliðina á Ronnie Scott´s jassklúbbnum þekkta, reyndar er lítill Marokkóskur veitingastaður á milli, svo kannski er túrisminn að rugla menn eitthvað í ríminu, þarna fer mikill fjöldi fólks um á hverju kvöldi og alltaf er líf í tuskunum. Það afsakar þó ekki klaufalega þjónustu og frekar flatt curry. Blanda forrétta skildi eftir fleiri spurningar en hún svaraði, hvað var t.d. uppþornuð og algerlega ofelduð lambakóteletta að vilja uppá dekk innanum fallega kjúklingabita, sheekebab og fleira góðgæti úr tandoori ofninum. Báðir aðalréttirnir voru bragðdaufir þó beðið hafi verið um medium og meðlæti var óspennandi.
3 stig fyrir slaka eldamennsku í síðustu tveimur heimsóknum.
3 stig fyrir þjónustu sem var á mörkum þess fáránlega, þjónar komu hver oní annan og enginn vissi hvað sá fyrri hafði afgreitt og svo var einhver “tjúsund tjakk” kjánagangur sem átti að láta manni finnast Íslendingar eitthvað sérstaklega velkomnir.
7 stig fyrir vinalegt, og hreinlegt umhverfi.
4 stig fyrir verð talsvert umfram gæði.
Samtals 17 stig sem er því miður engan veginn nógu gott á jafn þekktu og rómuðu veitingahúsi.

Á Charlotte st. er indverski staðurinn Curry Leaf og núna erum við að dansa. Staðurinn fékk bestu einkunn ársins hjá AAA samtökunum og stendur fyllilega undir hrósinu. Í þessari götu eru margir litlir, skemmtilegir staðir sem vert er að athuga og upplagt að byrja á þessum. Hann er ekki stór en afar snyrtilegur, tvær borðaraðir inn eftir endilöngu rýminu og fjögur tveggja manna borð úti á veröndinni. Það var einstaklega afslappandi að sitja úti í sólinni og virða mannlífið fyrir sér á meðan snætt var langbesta curry sem undirritaður hefur fengið í London í seinni tíð. Þjónarnir virkuðu örlítið feimnir í fyrstu en jöfnuðu sig fljótt og komu sterkir inn með fróðleik og gamansemi, ávallt kurteisir þó.
Blanda af forréttum úr ofninum var blessunarlega án kótelettukolamolans sem fyrr segir frá, hér var næmni í eldamennskunni og jafnvægi í kryddblöndum. Aðalréttirnir voru bragðmiklir án þess að ofbjóða og sá sterkari var sérlega góður, kom hjartslættinum úr hægagangi og framkallaði nokkrar svitaperlur, allt eins og það á að vera. Meðlæti var bragðgott og fallegt á diskinum, tvennskonar chutney og laukblanda með poppadominu, Bombey kartöflur og pilau hrísgrjón með matnum auk Nan brauðsins sem ekki má vanta. Eftirréttur var sæt bolla í enn sætari sósu, sykurskammtur vikunnar afgreiddur í fjórum bitum.
10 stig fyrir frábært curry og vandað, fínlegt meðlæti.
8 stig fyrir kurteisa og vandaða þjónustu.
8 stig fyrir látlaust og snyrtilegt umhverfi.
10 stig fyrir mjög sanngjarnt verð á góðum viðurgjörningi.
Samtals 36 stig. Einn albesti Indverski veitingastaður sem ég hef komið á utan Reykjavíkur og mæli ég hiklaust með Curry Leaf fyrir þá sem líkar curry á annað borð.

Veitingastaðurinn Light of Nepal hefur í 2 til 3 áratugi verið í miklu uppáhaldi hjá Íslenskum ferðalöngum í London. Staðurinn er á King st. í Hammersmith, rétt vestan við Ravenscourt Park túbustöðina, kippkorn frá því miðbæjarsvæði sem mest var skoðað nú, og býður uppá Nepalskan mat frekar en hefðbundinn Indverskan.
Heimsókn á þennan stað fyrir réttum tveimur áratugum skildi eftir sig magnaðar minningar um frábæran mat. Í dag stendur þessi staður engan veginn undir orðsporinu og vantar mikið uppá. Maturinn var flatur og óspennandi, varla hægt að segja að hann hafi einu sinni ilmað vel sem er þó yfirleitt til marks um gott curry. Íslendingunum var fagnað mjög þegar við gengum í salinn en að öðru leiti var þjónustan næstum absúrd og gekk aðallega útá að þykjast ekki skilja neitt tungumál. Verðlag var hærra en ásættanlegt er fyrir ekki betri mat, mál er að linni og mun ég ekki borða aftur á þessum stað í bráð.

Lítil Indversk matstofa í suð-austur Soho, Bay of Bengal, lætur lítið yfir sér sunnarlega á Greek Street en bíður uppá gott, bragðmikið curry og Tandoory. Liggur vel við höggi í hádeginu en um leið og þessi tiltekni staður er þokkalegur er hann samnefnari fyrir ótal marga svipaða staði í þessum hluta borgarinnar og þó víðar væri leitað. Kannski er vert að hafa í huga, til viðbótar lágmarkskröfunum tíunduðum hér í upphafi skrifanna, að við val á “skyndi” bitastað, og þá er alls ekki átt við þá hræðilegu ruslfæðisstaði sem plaga London eins og allar aðrar borgir hins siðmenntaða heims, ber að sneiða hjá “keðju” stöðunum og leita uppi smærri lóköl. Helst þar sem eigendurnir eru sjálfir við stjórn. Þessi tiltekni staður er einn slíkur. Ekki neitt fansý “út að borða” en alvöru curry á sanngjörnu verði.

Vodka and Food er á St. Annes court, þröngri tengigötu milli Dean st. og Frith str. í Soho. Tilkomumikið úrval Vodka frá öllum helstu framleiðendum heims. Ef hugmyndin er að setjast einhverstaðar inn og fá sér frískandi áfengisblöndu er þessi staður verður einnar heimsóknar að minnsta kosti. Staðsettur í miðju klúbba- og restauranta hverfinu er hann samt örlítið til hlés. Stutt frá Oxford street, Soho Square og öllum hinum kennileitunum á þessu svæði borgarinnar.


Eitt mesta ævintýri síðustu ferðar var heimsókn á einn af eldri Ítölsku veitingastöðum borgarinnar, Il Ciciliano, í hjarta Soho við götu þar sem allt var Ítalskt fyrir ekki svo mörgum árum síðan. Il ciciliano er nú einn eftir af “orginölunum”. Við fengum hlýlegar móttökur og vorum boðin velkomin þó kvöldi væri tekið að halla, reyndar komið fast að miðnætti. Frábær Ítalskur matur á sanngjörnu verði og þjónustan var persónuleg og einlæg, sannarlega heimsóknar virði. Innréttingar eru að hluta frá “gamla landinu” og rýmið er mótað eins og kjallarahvelfing gamallar kirkju, bogadregnar línur og freskur málaðar beint í gipsið. Ævintýrið sjálft hófst hinsvegar fyrir alvöru eftir máltíðina þegar við báðum um að fá að klára kaffi og koniak við eitt borðanna úti á stétt. Við höfðum veitt athygli tveimur afar hressum mönnum sem gæddu sér á Gorgonsola og hvítvíni og heilsuðu öllum sem leið áttu hjá. Þarna var eigandi veitingastaðarins og félagi hans að slaka á í lok dags og þeir þekktu alla í hverfinu og allir þekktu þá. Einstök upplifun að fá að sitja með ekta Ítölskum mafí...uhumm, sönnum Ítölskum herramönnum og deila eins og einni koniaksflösku með þeim.
8 stig fyrir góðan “orginal” Ítalskan mat
8 stig fyrir hæverska og vinalega þjónustu
8 stig fyrir “Ítalskt” umhverfi
8 stig fyrir hæfilegt verð
Samtals 32 stig. Einn síðasti “orginal” staðurinn í Soho, frábær lítill staður.