Monday, January 15, 2007

Bada-bing !


Veitingastaðir í jöðrum iðnaðarhverfa? Er tilvist þeirra ein og sér ekki efni í einhverskonar samfélagsstúdíu? Matarholur sem existera fyrst og fremst til að fullnægja þörf vinnandi manna á að fóðra sig, á sem haghvæmastan og gjarnan fljótlegastan hátt, hljóta að lúta öðrum lögmálum en þær sem snúast um afþreyingu og raunveruleikaflótta viðskiptavinarins. Allavega reyndi ég að stilla mig inná einhverja slíka hugsun þegar ég gekk inn á veitingastaðinn Bada-bing í Hafnarfirði. Bada-bing?! Er verið að sítera, með nafngiftinni, í eitthvert ítalskt gangsterslang að hætti mafíunnar vestan hafs? Eða þýðir þetta í alvöru eitthvað á Thailensku? Og þá hvað?

Aðkoman er stórundarleg, ófrágengið bílastæði, risastórt skilti á húsgafli á iðnaðarhúsnæði, sem hefur reyndar hýst menningarstarfsemi um nokkurt skeið og fáir aðrir vegvísar að sjálfum staðnum. Engar merkingar á hurð og dyrnar sjálfar ekki nógu greinilegar í gluggaröðinni, maður þarf að leggjast á gægjur til að sjá hvort fletta er veitingastaðurinn eða bílaverkstæði Badda.
Stór salur, hátt til lofts, vítt til veggja og lagnir sýnilegar eins og títt er í iðnaðarhúsnæði. Engir kúnnar og staffið, kokkur í kokka-klæðum, stúlka, og illa tilhafður piltur til viðbótar, sitjandi frammi í borðsalnum með fartölvu og kaffibolla. Risastórt tjald á vegg sem á er varpað einhverri íþróttasjónvarpsstöð. Viðskiptavinurinn er eiginlega tilneyddur að spyrja; “Er opið hjá ykkur núna”? Ekki að sú spurning hafi hreyft tiltakanlega mikið við þeim þremur sem þarna sátu og slökuðu á.
Aðeins helmingur matseðilsins í boði, þessi vinstra megin á blaðinu. Hitt bara einhverjar pítsur og hamborgarar, barnamatseðill og svoleiðis “vesen”. Algjört ævintýri í mannlegum samskiptum að reyna að fá piltinn til að skilja pöntunina, sem þó var ekki ýkja flókin enda aðeins helmingur seðilsins í boði. Ekki var um að kenna ólíkum menningarlegum uppruna eða tungumálaskilningsleysi, því þetta tætingslega ungmenni var, án alls efa, af innlendu bergi brotinn.
Lítið hægt að gera annað en bíða og sjá hvað kæmi að lokum á borðið. Já einmitt – “að lokum”. þegar maður er látinn bíða eins lengi eftir matnum og við þetta kvöld er maður að vonum orðinn eftirvæntingafullur þegar hann loks skilar sér á borðið.
Og til að allrar sanngirni sé gætt er rétt að það komi skýrt fram; maturinn sem borinn var á borð bragðaðist ágætlega. Hann leit hinsvegar út eins og honum hefði verið mokað á diskana með miðlungstórri sandkassaskóflu, kúffullir diskar af hrísgrjónum á mann og svo sinn rétturinn hvor á tveimur diskum til viðbótar, ausið beint af pönnunni. En hvað var það þá sem tók allan þennan tíma? Og afhverju fylgdu engin áhöld með til að skammta matinn?

Sá sem eldar þarna kann að líkindum eitthvað til verka, maturinn bar það með sér kominn í munninn. En er nauðsynlegt að slubba þessu á diskana líkt og gert er í mötuneytum ríkisfangelsa í Amerískum bíómyndum? Hefði ekki verið jafn lítið mál að færa þetta upp þannig að þetta liti í það minnsta út eins og matur pantaður af matseðli á veitingahúsi um kvöldmatarleytið föstudaginn fyrir áramót og ætlaður 6 manna barnafjölskyldu.
Og í alvöru; hvað var með piltinn sjoppulega sem sauðaðist við afgreiðsluborðið og villti á sér þær heimildir að hann væri þarna staddur til að ganga um beina? Er feluleikurinn í aðkomunni, kuldalegt og fráhrindandi umhverfið, kjánalegar móttökurnar og helmingaður matseðillinn ekki nóg? Þarf að gulltryggja að maður kemur aldrei nokkurn tíma aftur inn á þennan stað með því að hafa enga... minna en enga, þjónustu... eða öllu heldur afgreiðslu, sem er sennilega réttara orð?

Viðmiðið hlýtur ávallt að vera það sama, hvort heldur er um að ræða veitingastað vandan að virðingu sinni, eða ræfilslega matarholu í jaðri iðnaðarhverfis. Maturinn þarf að vera í lagi, umhverfið má helst ekki vera þannig að manni líði beinlínis illa inni á staðnum og sá sem sér um afgreiðslu, milligöngumaðurinn, þarf að hafa í það minnsta gripsvit á því verki sem honum er ætlað að vinna og helst að vera hreinn, sæmilega kurteis og þokkalega til fara líka.
Breytir engu hvort staðurinn er í dýrari eða ódýrari klassa, þessir tilteknu hlutir þurfa helst að vera í lagi.
Á Bada-bing er aðeins eitt þessara atriða í þokkalegu lagi, sjálf eldamennskan, maturinn bragðast ekki illa. Allt annað, á þessum illa heppnaða matsölustað, er algerlega út í hött og gefur manni enga ástæðu til endurkomu.

Sjávarkjallarinn


Ég þurfti aðeins að leita til að finna Sjávarkjallarann, þó rata ég vel í miðbænum. Engar glannalegar merkingar eru utan á húsinu sem vísa manni á þennan rómaða veitingastað, maður verður bara að spyrja til vegar.
Aðgengi að staðnum er í gegnum lobbý á túrista-information centrúmi sem gangsett var fyrir nokkrum árum, og svo niður tröppur að gömlum hlöðnum kjallara. Strax þar á þröskuldinum virkar aðkoman dularfull og spennandi. Sumir fá “innilokara” en mér þótti gott að koma inn þar sem lágt er til lofts og lýsing dempuð. Gólfin eru lögð steinum eins og þeim sem kjallarinn er hlaðinn úr, tilfinningin dálítið eins og að koma ofaní dýflissu í gömlum kastala. Fiskabúrið undir barnum er svo efni í aðra grein í allt öðru tímariti.
Fremra rýmið er móttaka og lítill setukrókur úr plexigeri og plasti, nett undarlegur, með eldrauðum leðurklæddum svefnbekk. Salerni eru einnig staðsett í þessu rými og þegar mest er að gera um helgar geta myndast biðraðir við þau.
En matsalurinn innar í kjallaranum er málið. Mér datt í hug lína úr ljóðinu Sigtryggur vann, Þursaflokksins; “Hér er stofan ný, hún er öll tjölduð og þakin með blý”. Einstaklega aðlaðandi og smekklegt umhverfi. Uppfullt af góðum tilfinningum. Maður finnur strax hvað öllum, starfsliði og gestum, líður vel þarna inni. Fáum sögum fer af útsýninu, enda er kjallarinn niðurgrafinn eins og kjallarar eru gjarnan. Þess vegna heita þeir “kjallarar”.

Hvert borð var setið og allt á fullu, þó varð ég ekki tilfinnanlega var við umferð þjónanna um salinn. Þeir liðu um lókalið átakalaust og öruggt. Ég þurfti aldrei að skima eftir þjóninum og allar hans innkomur voru einstaklega fagmannlega útfærðar. Samt var hann líka kurteis og þægilegur. Stúlkan sem tók á móti okkur síðast og afgreiddi fordrykkina mætti taka hann sér til fyrirmyndar. Henni þótti ekki nógu gaman í vinnunni.
Matseðillinn virkar svolítið asískur við fyrsta yfirlestur en þó er hann það ekki alfarið. Sumir réttanna bergmála austrið fjær, sezuan, tobanjan, su-miso, satay og tandoori en í eldhúsinu eru íslenskir meistarakokkar, Matreiðslumaður ársins 2004 og nýbakaður matreiðslumaður ársins 2006.
Dark shadow laxinn og Four seasons, fjórir fiskréttir urðu fyrir valinu sem ágæti dagsins. Á undan fengum við óvænt skemmtilegan forrétt í miniútgáfu af gömlu glerkrukkunum með hespulokinu, þið munið. Eitt-núll fyrir kokkunum, búið að leggja línurnar strax í upphafi máltíðar. Eldamennska verðlaunakokkanna stóð fyllilega undir væntingum, allir fiskréttirnir fjórir voru góðir en laxinn stóð uppúr sem langbestur þetta kvöld. Seinna prófuðum við óvissuferð samsetta úr nokkrum ólíkum réttum og þó meistararnir hafi hvorugur verið á vakt það kvöld virtist það ekki koma að sök. Ef eitthvað var síðra það kvöld var það helst að biðin milli rétta var vandræðalega löng svo tognaði verulega úr máltíðinni. Ef fjölgar svo í salnum að erfitt er að ráða við það þarf líka að fjölga í staffinu.
Hlutverk borðbúnaðar er stundum vanmetið, nauðsyn sérkenna og samspils, hver rödd þarf að heyrast en kórinn verður samt að hljóma. Sjávarkjallarinn fer einum lengra í þessum efnum. Mikil vinna og natni er lögð í útlit og áferð réttanna og maður getur ekki annað en hlakkað til að smakka. Maturinn var frábær í þessi þrjú skipti sem við heimsóttum staðinn og hann var fallegur á diskinum löngu eftir að hann var búinn. Reyndar máttu diskarnir gjarnan standa örlitla stund, eftir máltíðina, svona eins og til að treina ánægjuna. Verðið er örlítið hærra en sumstaðar en kúnninn fær líka örlítið meira. Álagning á vín er hér, eins og víða, alltof há en gott úrval er á seðlinum.
Sjávarkjallarinn er meðal bestu veitingahúsa borgarinnar og fær fimm stjörnur.