Monday, November 05, 2007

Rauðará steikhús















“Rauðará steikhús góðan dag.” ” Góðan dag, áttu borð fyrir tvö í kvöld.” ” Já, klukkan hvað vilji’ði koma? “ ”Kl.9.“ ”Það væri betra ef þið kæmuð kl.hálf níu.“ ”Ha! Væri það betra? “ ”Já eldhúsið lokar kl.9 á sunnudögum.“ ”Við gætum kannski verið hjá ykkur rúmlega hálf.” ” Gott, en ég set pöntunina ykkar kl. hálf og þið athugið þá að eldhúsið lokar á mínútunni 9.”
(Í upphafi kvöldsins):“Seinast þegar ég kom hér inn var hér Líbanskur veitingastaður, alveg orginal með músik og magadansmær og alles.” ”Já er það? Ég er einmitt að æfa magadans en það var samt ekki ég, ég er samt búin að nefna það við eigandann hvort ég ætti ekki að taka það sem aukadjobb hér á staðnum, ég tek ekki mikið fyrir.” (örlitlu síðar):“Við veljum Wolf Blass Yellow label með þessum mat.” “Já það er æðislegt, reyndar finnst ekki öllum það. Ég smakkaði í fyrsta sinn í gær President series, með svarta miðanum, það er meiriháttar!” (og seinna sama kvöld): “matarstellið er fallegt” “já, finnst ykkur það ekki!” “En steikurnar okkar eru báðar kaldar og bökuðuð kartöflurnar ekki nema rétt volgar.” ”Já..! Það skeður stundum!”
(og enn seinna sama kvöld):“Ansi er kalt hér í koniaksstofunni. Getur verið að gluggi sé opinn?” “Nei nei, en í morgun bilaði miðstöðvarofn og fór á fullt, við rétt náðum að slökkva á honum áður en kviknaði í.” ”Nú, er kaffið og koníakið þá á afslætti af því gestirnir þurfa að sitja í úlpunum svo slái ekki að þeim?” “Þú verður að ræða það við Stefán, hann er miklu harðari í þessu en ég.” (Stefán???) (og svo aðeins seinna, reyndar við aðra gesti sem einnig hímdu í frostkaldri stofunni, en hátt og snjallt svo allir viðstaddir heyrðu): “Jæja, þá er hér kominn fjórfaldur!!!”

Ég hefði líklega ekki lagt samskipti okkar á minnið, hvað þá sagt öðrum frá, ef þau hefðu átt sér stað á matstofu. En þar sem þessar setningar voru sagðar í einu af dýrari steikhúsum höfuðborgarinnar stuðuðu þær mig. Hvað varð um takk fyrir, gjörið svo vel, verði ykkur að góðu og fleiri slíka frasa. Og jafnvel afsakið, sem hefði átt mjög vel við þegar ljóst var að dinnerinn var misheppnaður og koníaksstofan orðinn að kæliklefa.
Nokkrum vikum áður ætlaði ég að bjóða fjölskyldunni út að borða. Ég hringdi í steikhúsið við Rauðarárstíg og var tjáð að ekki væri sérstaklega gert ráð fyrir börnum á veitingastaðnum, ekki væri neinn barnaseðill og ekki eldaðir minni skammtar. Ég er eldri en tvævetur og skil fyrr en skellur í tönnum, börnin voru ekki velkomin á staðinn. Gott og vel, hverjum rekstraraðila hlýtur að vera í sjálfsvald sett hvaða fólki hann hleypir inn á staðinn sinn. Við fórum bara annað með peningana okkar í það sinn.

En nú vorum við semsagt komin, barnlaus, til að prófa steikhúsið. Húsnæðið er hlýlegt, innréttingarnar hafi ekki mikið breyst þó staðurinn hafi skipt um hlutverk og eigendur. Þar sem svo knappur tími var til stefnu (eldhúsið lokar nefnilega kl.9 á sunnudögum) ákváðum við að taka tilboði dagsins. Það myndi líka án efa gefa góða mynd af því sem staðurinn er stoltastur af, steikunum. Humarsúpan á undan var þolanleg, þó aðeins í saltara lagi. Humarinn sem fylgdi með var hinsvegar ofeldaður og seigur og brauðbollurnar líklega beint úr frystinum, forbakaðar. En það voru steikurnar sjálfar sem ollu mestum vonbrigðunum. Nautalundin var meir og safarík og af litnum að dæma, alveg hárrétt elduð. En hún var köld. Fyrstu bitarnir voru reyndar spenvolgir en sú velgja dugði ekki máltíðina á enda. Svipað var með lambafilleið, það var kalt og spikröndin líka. Bökuðu kartöflurnar voru heldur volgari en kjötið en alls ekki nógu heitar og kólnuðu hratt. Meðlætið var athyglisvert, salatrifrildi hellt úr poka og brokkolí/blómkálstvenna, svona eins og fæst á litlum bakka í Bónus. Hefði ekki verið eins áberandi hallærislegt ef kokkurinn hefði skorið hausana í tvennt. Og svo paprikustrimlar svissaðir á pönnu. Tvennskonar sósur fylgdu með en þær voru óáhugaverðar. Tíramísu, varla meir en frómas á bleittum tertubotni og súkkulaðikaka með Baylies-ís náðu ekki að redda kvöldinu. Maturinn var kaldur og þar af leiðandi algerlega óboðlegur og tilboðinu um að taka hann aftur og “skella í ofninn” var að sjálfsögðu hafnað. Við kláruðum úr glösunum í koníakskæliklefanum en treystum okkur ekki til að sitja þar yfir kaffibolla vegna kulda. Og svo er ég ekkert viss um að ég vilji að allir viðstaddir fái að vita hvað ég panta margfaldan. Í lokin borgaði ég svo uppsett verð fyrir máltíðina en fékk bara einverskonar “shit happens!” þegar ég benti á handvömmina. Vandvirkni er stórlega ábótavant og metnaðarleysið virðist vera algert. Stúlkurnar sem gengu um beina voru líka allt of kammó fyrir stað í þessum verðflokki.
Venjulega gef ég einkunn í lok greinar sem þessarar en ég held að Rauðará steikhúsi væri enginn greiði gerður með því.

Einar Ben












Einar Ben við Ingólfstorg er einn af boðlegri veitingastöðum borgarinnar. Staðsettur í einu elsta verslunarhúsi Reykjavíkur og minnir innkoman dálítið á annan góðan veitingastað, hinumegin við Austurvöll, þó stigi Einars sé ekki eins brattur og stigahúsið ekki eins þröngt. Salarkynni eru líki ögn rýmri og skreytingar ekki eins yfirdrifnar. Þó er hlýlegt um að litast og myndir á veggjum minna á lífshlaup þess merka athafnamanns og stórskálds sem Einar var. Fátt á matseðli tengist honum þó beint og líklega er nafninu og myndunum ætlað að minna á hann fremur en sjálfum matnum. Á forréttmatseðlinum er þó að finna kjötsúpu og fiskisúpu “að hætti Einars Ben”.
Samsettur 5 rétta seðill gefur góða mynd af því sem í boði er og hann er hægt að fá án víns eða, sem er mun meira spennandi, með 5 mismunandi vínum sem yfirþjónn velur.
Fyrsti rétturinn á borðið var laxatartar með rauðrófusósu, fínlegur og góður réttur. Strax á eftir fylgdi salat með kirsuberjatómat og gráðosti og með þessu smökkuðum við Sauvignon Blanc, Vicar´s Choice frá Nýja Sjálandi, afar vel passandi svona í byrjun. Frábærri klausturbleikju með Jerúsalem-ætiþystlamauki fylgdi glas af Lucien Albrect Pinot Gris frá Alsace í Frakklandi einstaklega milt og aðlaðandi, það stefndi í frekar góða veislu. Humarsúpa með skelfisk-soufle var léttpískuð og mjög bragðgóð. Henni var rennt niður með glasi af Austurrísku Chardonney, Kollwentz Tatchler 2004, víni sem verður örugglega pantað aftur síðar. Nautalund með smjörsteiktu smælki og portabellosveppum skyldi vera aðalréttur kvöldsins og eftir þessa frábæru uppbyggingu var eftirvæntingin mikil. En vonbrigðin líka þeim mun meiri. Kjötið var að vísu bragðgott en eitthvað hefur tímavörðurinn verið utan við sig því “rare” var “well-done” og “medium” var grá í gegn og seig undir tönn. Þar sem talsverður magn matar var þegar komið í belginn var ekki farið fram á aðra steik en það hefði án vafa verið gert alla jafna. Steiking er það stór hluti matreiðslu nautakjöts að algerlega óafsakanlegt er að það skuli ekki koma nákvæmlega þannig steikt á borðið og beðið var um. Eftir frekar vel heppnaðan dinner fram að því var kjötið ekki sá demantur í kórónuna sem það hefði geta verið og hefði átt að vera. Með steikinni var smakkað rauðvín frá Chile, fjögurra berja blanda, Shirah í meirihluta, Coyam 2004 frá Colchagua dalnum. Það var ekki að okkar smekk en kannski höfðu vonbrigðin með nautið áhrif á það álit.
Eftirrétturinn var borðaður á efstu hæðinni, í seturými sem þar er, og skyr créme-brulee með pistasíuís var í sömu sveiflu og forréttirnir höfðu verið, afar góður réttur. Að lokum smökkuðum við eftirréttavín, Sanxet Millenium 1997 frá Mobazillac í Frakklandi og verður að segjast eins og er að vínin sem valin voru með réttum kvöldsins lyftu máltíðinni á hærra plan. Þegar þjónninn er svona vel að sér er óhætt að láta hann um valið. Í fjórum heimsóknum á nokkurra mánaða tímabili hefur Einar Ben skilað sínu. Maturinn hefur verið góður, jafnvel mjög góður á stundum, og þjónustan hefur undantekningarlaust verið smekkleg og fagmannleg. Umhverfið er afslappandi, helst að drunur tillitslausra mótórhjólamanna úti fyrir nái að trufla stemmninguna, þeir virðast nefnilega halda að stéttarnar við torgið hafi verið lagðar fyrir þá sérstaklega. Efsta hæðin er hlýleg, þó þar sé vítt til veggja, og vel myndi fara að bjóða þar uppá píanista í lok kvölds eða í.þ.m. ljúfa tónlist af geisladiskum. Þögnin getur nefnilega orðið ansi yfirgnæfandi þegar margir þegja í kór. Einar Ben kemur kannski ekki fyrstur allra upp í hugann þegar fara á út að borða í Reykjavík en þessi huggulegi staður stendur fyllilega fyrir sínu í mat, þjónustu, umhverfi og verði. Ég gef fjórar stjörnur og ætla að muna eftir staðnum næst þegar ég er að vandræðast niðrí bæ.

DOMO







Domo er kurteisisávarp á japönsku. Gjarnan bætt framanvið “arigato” ef menn vilja sýna þakklæti sitt en getur líka staðið eitt og sér sem stutt kveðja, “takk” eða jafnvel “verði þér að góðu”. Það er vel við hæfi að nefna veitingastað þessu nafni, sérstaklega þennan sem um ræðir því matseldin þar á bæ ber keim af austurlöndum fjær og þá einkum Japan. Nútímalegt, smekklegt umhverfi og vandaðar innréttingar er það fyrsta sem maður tekur eftir þegar inn er komið enda varla við öðru að búast þegar þeir félagar Kormákur og Skjöldur eiga í hlut. Upp nokkrar tröppur og maður stendur í miðjum sal. Þar er strax tekið á móti manni og vísað til borðs. Salurinn er þrískiptur, fremra rýmið er sitthvoru megin við uppganginn og inn með veggnum til vinstri, í miðrými er langborð á háum fótum og innst er gluggalaus salur með tveggja og fjögurra manna borðum. Vel heppnað skipulag og þjónarnir hafa góða yfirsýn. Við vorum sett á lítið borð við vegginn og ég kveið því dálítið að við myndum verða fyrir ónæði af umgangi því þarna eru dyr sem um er gengið til að komast niður á barinn í kjallaranum. Barinn sá er einnig tónleikastaður á hraðri uppleið í músikmenningu borgarinnar. Þó að nokkrir gestir hafi farið um þessar dyr á meðan á máltíð okkar stóð var eins með það og annan umgang á staðnum þetta kvöld, við fundum lítið fyrir því. Þessar tvær rekstrareiningar virðast geta þrifist hvor með annarri án þess að rekast á eða valda truflun. Það var engu líkara en rökkvaður matsalurinn dempaði allt og róaði niður, einhverskonar Feng Shui í gangi.
Matseðillinn er fjölbreyttur og við ákváðum að treysta eldhúsinu fyrir uppröðuninni, Domo Surprise, úrval af öllu því besta sem í boði er. Sushi í nokkrum útgáfum og sashimi, borið fram á klakabeði í stórri skipslaga járnskál, var upphaf ævintýrsins. Bitarnir voru hver öðrum betri og kokkarnir láta ímyndunaraflið ráða för, tilkomumikil byrjun. Með þessu drukkum við glas af hvítvíni hússins, Masi Soave, sem fór vel með þessum fersku fiskréttum. Aðalréttir á þessum samsetta seðli eru alltaf kjöt og fiskur, besta hráefni þess dags. Við fengum að smakka grillaða nautalund með shiitake-sveppum og yakitori-piparsósu og “blakkaðan” þorskhnakka í hvítlaukssojasósu, hvort tveggja afar sérstæðir og bragðgóðir réttir. Að auki fengum við að prófa stökksteikta andabringu með volgri andalifur, mangó-og púrtvínsplómusósu. Ég hef ekki verið ýkja hrifinn af foie gras til þessa, þótt það vera fremur óspennandi og bragðlaus kæfa, en þessi framsetning breytti því áliti mínu. Rétturinn spilaði á allan bragðtónstigann, frá mildu andarsteikarbragði til sætunnar í mangóinu, örlítillar súru í plómunni með viðkomu í púrtvíni og kryddum. Afar vönduð matseld. Með þessum herlegheitum drukkum við rauðvín, Wolf Blass-yellow label, traust og gott. Í eftirrétt smökkuðum við Créme brullée sem lokaði máltíðinni smekklega á mildum og léttum nótum.
Allir réttirnir sem bornir voru á borð voru fallegir og freistandi á að líta. Þeir voru bragðgóðir, hver á sinn hátt og eins ólíkir hver öðrum og þeir voru margir. Eldhúsið er stóra tromp staðarins en fast á hæla þess koma þjónarnir í salnum. Þeir eru starfi sínu vel vaxnir og sá sem sinnti okkur hafði afar þægilega nærveru. Hann gaf góð ráð og greinargóð svör við öllu sem spurt var um og það var ekki síst hans vegna að kvöldið var frábært. Heimasíða Domo er www.domo.is. Þar er matseðilinn en fátt annað. Fyrir utan vínseðil, upplýsingar um matreiðslumeistarana, sögu hússins og opnunartíma veitingastaðarins mætti setja þarna inn tónleikadagskrá kjallarans og annað fréttnæmt sem staðinn varðar. Ég gef Domo fimm stjörnur, smekklegur og aðlaðandi veitingastaður með góða þjónustu og frábæran mat.

Great wall of China.













Kínamatur er vinsæll um heim allan og svo er einnig hér á landi. Asískir veitingastaðir í höfuðborginni eiga sér sumir áratuga langa sögu og hinar og þessar stefnur í matargerð hafa dottið í og úr tísku meðan Kínamaturinn hefur haldið sínu. Það þótti því sumum að verið væri að bera í bakkafullan lækinn þegar það spurðist að til stæði að opna kínverskan veitingastað í því fornfræga húsi sem um árabil var veitingastaðurinn Naustið. Inngangur hins nýja veitingastaðar sver sig mjög í ætt við Kínastaði víðs vegar í vesturheimi, þungar útskornar hurðar, skrautleg der yfir anddyri og kassi fyrir utan þar sem matseðillinn hangir til yfirlestrar áður en ákvörðun um inngöngu er tekin. Þegar inn er komið mætir manni stór og bjartur salur með uppdekkuðum borðum, Asískum styttum og vösum og tauþurrkum. Í tveimur heimsóknum, í hádegi og um kvöld var móttakan nákvæmlega eins upp á punkt og prik, greinilega vandlega skrifað handrit sem fylgja skyldi í smæstu smáatriðum, ekkert rúm hér fyrir frávik og tilhliðranir. “Do you have a reservation?”, sagt hranalega og með illskiljanlegum hreim. Rýnir stóð satt að segja á gati því hingað til hefur verið hægt að kíkja í heimsókn í hádeginu og jafnvel á kvöldin á flesta Asíustaði í borginni án þess að “reserva” borð með fyrirvara. Og hver er þá tilgangurinn með menukassanum utandyra? Eiga þeir sem hann lesa, og langar inn, að hringja á undan sér og panta borð? Þessi hvassa og ópersónulega móttaka stuðaði pínulítið, sérstaklega í endurtekningunni nokkrum dögum síðar. En það átti eftir að hvessa töluvert áður en máltíðinni lauk.

Ekkert tungumál virðist gjaldgengt á þessum nýja, fína stað nema móðurmál þjónanna sjálfra. Enska var reynd til þrautar og einnig Franska og Þýska og að lokum Íslenska en árangurinn var ekki meiri en svo að nær allt sem pantað var skilaði sér ýmist í rangri röð, alls ekki eða það kom bara eitthvað allt annað. Þjónarnir, með fullorðinn mann í farabroddi sem greinilega réði ríkjum, hringsnerust um salinn eins og landafjandar, stressið og ringulnreiðin algerlega að bera þá alla ofurliði. Og ekki síður gestina. Það kann að vera að á “Great Wall of China” veitingastöðum út um heim, en svo heitir þessi keðja veitingastaða víst, sé hraðinn í afgreiðslu fyrir öllu og afslöppun gesta og notalegheit skipti litlu eða engu máli. Hraðinn var reyndar ekki sá sami niðri í eldhúsi því talsverð stund leið á milli rétta, lengri en gengdi góðu hófi. Svo var stórundarlegt innskot frá yfirþjóninum að koma alltaf öðru hverju á hlaupum að borðinu til að spyrja “All is OK yess!?!” og rjúka svo burt með það sama án þess að hlusta eftir svari. Sannarlega var ekki allt “OK” og vel hefði mátt laga eitthvað af því ef gestirnir við borðið hefðu fengið að tjá sig. En svo má efast um að það hefði skipt nokkru máli því það virtist sama hvað sagt var, öllu var mætt með sama hlýja, breiða brosinu og einhverju “yess, yessi!”.

Hvaða sirkusatriði á þetta eiginlega að vera? Getur verið að aðstandendur þessa veitingastaðar hafi ekki kynnt sér standardinn í íslenska veitingageiranum áður en vaðið var út í þessa hyldjúpu laug. Íslenskir veitingahúsagestir eru góðu vanir og það þýðir ekkert að bjóða uppá svona fíflalæti og ætlast svo til að maður borgi uppsprengt verð fyrir herlegheitin, því ódýr er þessi staður sannarlega ekki. Kannski voru þau öll að vanda sig svakalega mikið en það fór alveg öfugt í mig og mína og því miður treysti ég mér bara alls ekki aftur í þennan skrítna tungumálagátuleik. Sem er synd því maturinn, það af honum sem skilaði sér á borðið, var góður, jafnvel betri en annar Kínamatur sem í boði er í borginni. En út af hinum stöðunum hrökklast ég ekki sveittur og móður með dúndrandi hjartslátt eftir öll hlaupin í þjónunum. Og þar skilja menn það sem ég segi.