Monday, August 14, 2006

Við Tjörnina

Veitingastaðurinn Við Tjörnina lætur lítið yfir sér á annari hæð gamla hússins við Dómkirkjuna. Gengið er inn á staðinn á hliðinni sem snýr að Alþingishúsinu og staðsetningin verður vart þjóðlegri. Upp þröngan stiga sem brakar í og tekið á móti manni á skörinni. Ég var smástund að átta mig á umhverfinu, húsgögnunum og fjölbreyttum skrautmunum þegar við settumst í gamla sófann í barherberginu til að drekka fordrykk og skoða matseðilinn. Stemmningin svolítið eins og heima hjá gamalli frænku manns og mér fannst ég eiga að vera stilltur og prúður því hún hefði boðið til kvöldverðar. En þessi sérkennilegi stíll veitingahússins er einn af stærstu kostum þess, fyrir utan kokkana að sjálfsögðu. Stemmningin er heimilisleg og afar róandi og afslöppuð, manni líður strax vel þarna inni.
Þjónninn okkar þetta kvöld var eiginlega meira í ætt við breskan “butler” en hefðbundinn veitingahúsaþjón. Professional framkoma og hegðun í hvívetna. Og hann gerði allt rétt. Þarna var komin tilfinningin sem ég hef svo oft mært, að ég sé kóngur um stund og mínar þarfir og væntingar séu í aðalhlutverki. Tíminn, frá því ég kem inn og þar til ég stend aftur úti að lokinni máltíð, er minn tími. Þetta upprof frá raunveruleikanum er ef til vill helsta ástæða þess að ég fer út að borða. Að vera borinn í gullstól og borða mat sem er betri en sá sem maður eldar sjálfur heima.
Við völdum samsettan fimmrétta sælkeraseðil þar sem kokkarnir ráða för. Og svo hófst konsertinn. Fyrst kom á borðið rjómalöguð fiskisúpa og hún lagði strax grunninn að máltíðinni með lyktinni einni saman. Algjört lostæti og greinilega elduð af ástríðu og natni. Næst kom heitreyktur svartfugl með eplasalati og piparrjóma, góður forréttur og salatið kom skemmtilega á óvart. Innbökuð saltfiskkæfa með humri var frábær og fullkomnaði uppbygginguna að aðalréttinum, humarinn var stór, bragðgóður og rétt eldaður. Tvennskonar fiskur var í boði sem réttur dagsins, skötuselur og lúða, og kokkarnir völdu þá báða. Það er alltaf gaman þegar matreiðslumennirnir fylgja réttum sínum eftir og þeir komu báðir að færa okkur aðalréttinn og segja frá matseldinni. Skapar stemmningu og eftirvæntingu. Og þvílíkt ævintýr. Ég fer ekki oft að hlægja þegar ég smakka mat en það gerðist þarna, fiskurinn var svo bragðgóður og lystugur að ósjálfráð viðbrögð mín voru að hlægja upphátt í gleði minni. Það er langt síðan ég hef smakkað jafn góðan mat og þarna var borinn á borð og öll umgjörð þessarar máltíðar var eins og kafli í klassísku tónverki. Svona sinfóníur eru einfaldlega ekki leiknar víða í dag. Það er engin tilviljun að þegar gera á vel við erlenda gesti og stórmenni þá er oftar en ekki farið með viðkomandi á þennan veitingastað. Hann er einn af fáum sem hefur eigin stíl bæði í innréttingum og matseld og hér finnur maður það “commitment” sem vantar sárlega á suma staði í borginni. Hér var sannarlega ekki farin sú leið sem margir fara í dag, að mála veggina gráa og panta svo bara allan húsbúnað frá Ítalíu haldandi að það sé málið, vera bara nógu hipp og kúl og þá skipti matur og þjónusta ekki eins miklu máli. Nei, á veitingahúsinu Við Tjörnina er maturinn og þjónustan í öndvegi. Umhverfið er óður til gamla tímans þegar virðing og mannasiðir voru enn hluti af menningu okkar. Ég gef staðnum 5 stjörnur því hér er að finna eitt besta veitingahús landsins.


Rýni þessi birtist í Mannlífi, ágúst ´06

Sunday, August 13, 2006

Cafe Kidda Rót, Hveragerði. Part Two, eða “þetta kemur þegar það kemur”!!!

Kiddi minn, mér var sagt, í þessari heimsókn, að þú værir alltaf á staðnum en það breyttist í “nema núna, hann er í fyrsta fríinu frá því opnað var”. Staðurinn þinn þolir alls ekki, a.m.k. ekki með þetta staff, að þú sért í fríi.

Ég hef á undanförnum mánuðum beint athygli neytenda í auknum mæli að því hörmungarástandi sem ríkir víða í veitingageiranum og varðar þjónustu eða öllu heldur skortinn á henni. Veitingastaðurinn Kaffi Kidda Rót fékk, fyrir margt löngu síðan, hina sæmilegustu umsögn hjá mér og birtist hún í Mannlífi og hér á þessari vefsíðu. Síðan þá hefur eitthvað gerst og breytingin er mjög til hins verra. Nú er tekið við pöntunum við barborðið, áður en maður sest, en bara ef unglingurinn má vera að því. Ekki svo að skilja að hún sé upptekin af því að hreinsa borðin eftir gesti sem hafa yfirgefið staðinn eða að afgreiða aðra sem eru líka að panta. Nei, borðin eru flest með óhreinum diskum og enginn annar var að bíða akkúrat þetta augnablik. Mér þóttu tilsvörin undarleg, vægast sagt, þegar ég vildi spyrja um réttina á seðlinum en hún svaraði reyndar öllu sem hún var spurð um, afar undarlega. Til að mynda þegar 35 mínútur voru liðnar frá pöntun án þess að á okkur væri yrt, lagt á borð eða hreinsað af næstu borðum matarleifar og óhreint leirtau og mér varð á að spyrja hvort ekki færi að styttast í hamborgarana okkar var svarið “þetta kemur þegar það kemur”. Ég var eiginlega mest hissa að hún skyldi ekki bara segja þegiðu og sestu og vert´ekki að rífa neinn kjaft. Og við beiðninni um hreinsun borða var svarið ”ég er að bíða eftir uppvöskuninni til að geta tekið meira” ?!?! Einmitt... og ég, viðskiptavinurinn sem er að fara að skilja peningana mína eftir hér, á að lykta af leifunum þangað til. Flottur apperatíf það. Svona starfsfólk fengi ekki vinnu á mínu veitingahúsi það er nokk á hreinu. Svo þarftu Kiddi minn að athuga að ef þú ætlar að hafa opið inn í eldhúsið má kokkurinn alls ekki sleikja puttana á sér milli þess sem hann setur hamborgarabrauðið á grillið, tekur ostsneiðarnar til eða flettir í sundur kálblöðum. Reyndar myndi ég biðja viðkomandi að sleikja helst aldrei á sér fingurna meðan matartilbúningur stendur yfir. Jafnvel athugandi að kaupa einnota latex hanska á mannskapinn, svona eins og bifvélavirkjar nota. Hreinlæti er oftast til marks um vandvirkni og þessi staður er ekki hreinlegur. Veitingamaður sagði mér einu sinni að hann lætur alla sem vinna hjá sér, alltaf, sama hvað þeim er ætlað að gera, taka með sér óhreint ef þeir eru á ferð um salinn. Með þeim vinnubrögðum eru meiri líkur en minni á að staðurinn sé alltaf hreinn. Og þar að auki virkar staffið þá eins og það eigi eitthvert erindi inni á staðnum í stað þess að rangla um verkefnalaust og illa til haft eins og það er hjá þér, og það á sunnudegi.

Því miður kem ég ekki aftur í heimsókn á Kaffi Kidda Rót með mína 6 manna fjölskyldu. Ég býð mínu fólki einfaldlega hvorki uppá svona dónalega afgreiðslu né svona sleiktan mat. Takk fyrir mig.

Þrastalundur, við þjóðveg 35

Frábært veður, sól og hiti og Þrastalundur framundan, rétt að stoppa og prófa. Enda sagði í Dagskránni á Selfossi, fimmtudaginn 12.janúar að í Hafsteinsstofu yrði opnaður, þann 4. febrúar, hágæða veitingastaður með fimmrétta matseðli. Í fréttinni stóð reyndar líka að alltaf yrði hægt að fá rétt dagsins.
Ég var svolítið hissa að sjá aðeins eitt borð setið í stórum, mjög smekklega innréttuðum, matsal og klukkan rétt hálf sjö á laugardegi. Og non-stop umferð úr og í sumarbústaði. Enginn réttur dagsins, hann er bara í hádeginu! jæja, hver var þá réttur dagsins í hádeginu? Nei, hann er bara í hádeginu á virkum dögum. Gott og vel, en er kokkur á vakt, hugsanlega sá sami og eldar hér rétt dagsins, í hádeginu, á virkum dögum? Já já hann er alltaf á vakt...(Vá, er hann ekkert orðinn þreyttur? ok, ég verð þá líklega að renna austur, í hádeginu, einhvern virkan dag, fljótlega, til að sjá hvað hann býður best þann daginn).
Matseðillinn er hefðbundinn samloku/hamborgara/kjúklingabringu/
salats/grillskála seðill og er trúlega sá sami og er í boði í sjoppunni sem mætir manni fyrst. Pöntuðum barnasamloku með skinku og osti og Púka-borgara fyrir börnin en Panini kjúklingasamloku og Þrastalundar-borgara fyrir okkur. Barna maturinn var boðlegur og kjúllalokan næstum líka þrátt fyrir fátæklegt salatið og skort á flestu sem svona samloku þarf að prýða til að hún virki. En burgerinn sem lá andvana fyrir framan mig á borðinu minnti mig á setningu sem Berti Jensen sagði einhverntíma og fræg er orðin; “hvaða æfingar eru þetta eiginlega ???”. Örþunn beljuhakksneiðin (vitað er að það er hægt að gera um 400 stóra hamborgara úr einni belju) var ofsteikt svo að hún var brennd á jöðrum og á henni ekkert nema ostsneið og einhver sinnepsjafningur á milli tveggja snjóhvítra brauðsneiða. (það eru til að mynda að meðaltali 178 sesamfræ á einu Bic-Mac hamborgarabrauði). Icebergsalat hafði verið skorið og lá það við hliðina á tilbúningnum og inní honum, í felum, undir hakkinu. Og hinumegin var hrúga af frönskum kartöflum, reyndar alveg ágætum, jú og smásletta af kokteilsósu í svona litlu plast íláti með loki eins og á skyndibitastöðunum, (minni á fréttina um hágæða veitingastaðinn). Og þessi réttur er stolt staðarins, í þvílíkum hávegum hafður að þaðan dregur hann nafn sitt, Þrastalundar-borgari!!!
Þessari tilraun var að sjálfsögðu skilað tilbaka og farið fram á að borgari sem er rétt um tvöfalt dýrari en Púkaborgarinn skilji sig frá honum með einhverju öðru en munnfylli af icebergsalati. Nýr burger steiktur, jafn þunnur, en ekki látinn brenna að þessu sinni. Salatið til hliðar nú með ferskum skornum tómötum og rauðlaukshringjum oná iceberginu. Ostsneið og jafningur þó á sínum stað en virkaði einhvernvegin allt saman dýrara á að líta sökum tómata og lauks.
Af hverju er borgarinn hér ekki matreiddur af meiri metnaði? Af hverju þarf að skila honum með kvörtunum til að fá eitthvað sem líkist hamborgara sem gæti hugsanlega gert tilkall í sæmdarheitið “borgari hússins"? (En stenst þó enganveginn þá áskorun). Það er ekki erfitt að matreiða góðan hamborgara, það er gert oft á dag, á hverjum degi, um heim allan. Mér er nær að halda að það þurfi ásetning og fyrirhöfn til að gera hann svona illa. Þrastalundar-borgarinn er ekki verður nafns síns og þennan borgara þarf að gera miklu betur til að standa undir heitinu og verðinu. Það hlýtur að vera (eða ætti í það minnsta að vera) tilgangur hvers matreiðslumanns að elda mat sem manni líður vel af, á meðan hann er snæddur og einhverja stund þar á eftir. Ég var kominn framhjá litlu kaffistofunni í Svínahrauni , langleiðina heim, en fann ennþá fúlt steikarolíu bragðið í kokinu. Maginn, sem hafði mótmælt kröftuglega alla Hellisheiðina, var búinn að játa sig sigraðan og ég fann á honum að hann myndi ekki sætta sig við aðra svona árás.
Á þessum stað, við þjóðveg 35, rétt við ármót tveggja nafntogaðra, sögufrægra fljóta, í jaðri einhvers fegursta skógarkjarrs á Íslandi á ekki að vera grillskáli af lélegustu sort. Og á ég þá við eldhúsið ekki húsnæðið, því það er aðlaðandi, búið fallegum þægilegum húsgögnum og með þá flottustu ljósaskerma sem sést hafa lengi. Nema menn hafi í alvöru ætlað að reka hér “flottasta” grilldjoint ever! Vondan mat á ekki að bjóða til sölu neinsstaðar. Prufiði hitt, Þrastalundarmenn, og ég er viss um að það verður setið á fleiri borðum en þessu eina, klukkan hálf sjö að kvöldi laugardags, helgina fyrir verslunarmannahelgi, í steikjandi sól og blíðu og stanslausri traffík.

Salt Restaurant

Ég hef mikið velt fyrir mér hvers vegna veitingastaðurinn Salt, á fyrstu hæð Radison SAS 1919, hefur ekki slegið í gegn. Staðsetningin í þessu fornfræga húsi er frábær, miðsvæðis svo maður kemst næstum ekki hjá því að detta inn um dyrnar, innréttingar smart og modern og gluggarnir magnaðir. Svo er mannskapurinn í eldhúsinu ekki af verri endanum. En hvað er að klikka? Ég sló til þó áliðið væri kvölds, stúlkan sagði glaðlega að eldhúsið lokaði ekki fyrr en kl.10 og við værum velkomin, en bara ef við ætluðum ekki í þríréttað!?! Okkur var vísað inná bar og þar stóðum við í reiðileysi í smástund því okkur var hvorki boðið sæti né fordrykkur. Öll borð virtust vera frátekin og þau voru það enn þegar við fórum heim um miðnættið. Ef til vill er þarna komin hluti af skýringunni, það á að taka frá svo mikið pláss fyrir “djettsettið” að staðurinn stendur hálftómur lungann úr kvöldinu og svo mætir það bara eftir hentugleikum. Matsalurinn er snyrtilegur og gatið á veggnum, þar sem sér inn í eldhúsið, er sniðugt og skapar stemmningu. Salurinn er tvískiptur, fremra rýmið er gengt gatinu góða og innra rýmið er meira prívat, hentar vel fyrir hópa, við vorum sett á pínulítið borð í gangveginum. Hin borðin hafa eflaust verið frátekin. Þjóninum sáum við bregða fyrir alloft þessa stund sem við vorum þarna, en hann hafði öðrum hnöppum að hneppa en sinna okkur. Stúlkan sem fékk það hlutverk var veitingastaðnum tæplega til sóma. Nógu var hún samt vingjarnleg en þegar hún fór að segja okkur að það væri nú ekki svo fátt á staðnum núna miðað við þá tvo gesti sem mættu helgina á undan þótti okkur hún vera komin á hálan ís. Svo beit hún höfuðið af skömminni þegar hún fór að tjá sig um veitingahúsarýni sem nýlega birtist í virtu tímariti, “sá tók okkur sko aldeilis í rassg... “ Við vorum rétt að byrja að borða og þetta var myndin sem hún kaus að planta í huga okkar í upphafi máltíðarinnar. Ekki beint til að auka lystina eða gera staðinn aðlaðandi í okkar augum. Þarna hygg ég að kominn sé helsta ástæða þess að Salt er ekki vinsælasti staðurinn í bænum, þjónustan er fyrir neðan allar hellur og á köflum svo að jaðrar við að vera fáránleg. Það kærir sig enginn um að fara á veitingastað, borga fullt verð fyrir og vera afgreiddur af viðvaning. Sérstaklega ekki ef lærður þjónn er á þönum um salinn allt kvöldið “busy doing nothing” að undirbúa morgundaginn og sjálfsagt fyrir einhverja merkilegri gesti. En að matnum sem er frábær. Við smökkuðum reyndar bara aðalrétt því kjáninn hafði bannað okkur að panta margréttað, af því klukkuna vantaði korter í tíu. Túnfisksteik var ein sú besta sem ég hef smakkað lengi, mun betri en á mörgu sjávarréttarhúsinu. Steikingin hárrétt og krydd og meðlæti smellpassaði saman. Steiktur saltfiskur var ævintýri og eins passaði meðlætið stórvel þar. Þessir tveir réttir hefðu verið næg ástæða fyrir annarri heimsókn en afar vond þjónusta eyðilagði þá hugmynd gjörsamlega. Það er dapurleg niðurstaða ef upplifun af veitingastað litast svo af því sem illa er gert að það sem virkilega er vandað fer forgörðum. Útilokað er fyrir mig að meta að fullu verðlag staðarins þar sem ég fékk ekki að panta nema þessa tvo aðalrétti en miðað við vonbrigðin af heimsókninni í heild þá var þetta dýru verði keypt. Eins og víða annarstaðar, er álagning á vín hér einnig í talsverðu óhófi. Miðlungi gott vín sem kostar 1.600 krónur í Ríkinu er selt á 5.620 krónur og skyldi engan undra að maður vilji fá lágmarks þjónustu fyrir rúmlega þrefalt verð.
Salt hefur nær allt til að bera til að slá rækilega í gegn, maturinn er góður, umhverfið aðlaðandi og afar smekklegt og staðsetningin einstök. Þjónustan er þeirra Akkilesarhæll og nú er tímabært að veitingahúsaeigendur hætti þessum asnaskap í mannaráðningum. Menntaðir þjónar eru kannski ögn dýrari á fóðrum en það hlýtur að skila sér, þegar upp er staðið, í hagnaði, sérstaklega ef viðskiptavinirnir eru hættir að sækja staðina vegna einhverra krakka sem ekkert kunna til verka. Ég gef staðnum tvær stjörnur fyrir matinn og umhverfið og er tilbúinn að bæta tveimur við þegar þeir hreinsa til í staffinu.

Hereford Steikhouse Laugavegi

Ég fjalla helst ekki um þau veitingahús sem ekki verðskulda allavega eina stjörnu en mér var svo misboðið á dögunum að ég má til að segja frá því. Hereford Steikhús við Laugaveg gekk fram af mér og sumt var hreinlega svo grátlega lélegt að ég var viss um að við værum í falinni myndavél. Ekkert veitingahús sem ég hef snætt á tekur eins illa á móti gestum og þetta. Í fyrstu heimsókn minni gafst ég upp og fór án þess að mér væri sinnt en nú var okkur boðið á barinn því það þurfti að dekka upp fyrir okkur. Biðin þar, án drykkja, var fáránlega löng og þegar þjóninn loks kom var það til að spjalla við kunningja sína sem voru að yfirgefa húsið, ekki til að afgreiða okkur sem hann þó tók á móti réttum hálftíma fyrr. Á Hereford eru ekki teknar pantanir heldur fyllir hver gestur út einskonar krossapróf þar sem réttur viðkomandi er x-aður, hvernig hann skuli matreiddur, meðlæti og sósa. Sá sem hefur setið í bíl og gargað pöntun sína í járnkassa á drive-in þekkir tilfinninguna. Fyndið, ef maður er að fara út að borða til að þjóna sér sjálfur, en þá ætti verðlagningin líka að vera í samræmi við þjónustustigið. Svo er sannarlega ekki á Hereford. Við byrjuðum á nauta Tataki sem reyndist, þegar upp var staðið, vera skársti rétturinn þetta kvöld ásamt Hereford-salatinu sem kom með aðalréttunum. Einnig prufuðum við gæsalifrar múss með súkkulaðisósu og ég held að þar sé kominn versti forréttur sem ég hef smakkað. Hverjum datt þessi samtíningur af pískaðri bragðlausri kæfu og súkkulaði eiginlega í hug? Hver krossaseðill er merktur nafni viðkomandi gests en þrátt fyrir það tókst stelpunni að rugla öllum aðalréttadiskunum og það í tvígang. Kjötið var bragðlaust, mismikið steikt eftir diskum en nákvæmlega jafn óspennandi á þeim öllum. Salt og pipar hafði nær engin áhrif á þetta annars ágæta hráefni, hér var metnaðarleysi í eldhúsinu um að kenna. Bakaða kartaflan hefur verið bökuð í kæli því ekki bráðnaði smjörklípan oní hana eins og maður á að venjast og hýðið var líkast húðinni sem handritin voru skrifuð á. Pipar- og bernaise sósurnar sem fylgdu voru greinilega hitaðar upp í sama kæli og með sama árangri. Ekki gekk heldur vel að opna vínflöskuna dýru við borðið því stelpan hreinlega kunni það ekki og þegar það loks tókst hellti hún jafnmiklu á borðið og í glasið sem átti að smakka úr. Við þorðum ekki í desertakrossaprófið en ákváðum þess í stað að skoða betur flöskusafn sem vakið hafði athygli okkar meðan við biðum í upphafi kvölds. Og þetta safn ætti skilið stjörnuna sem veitingahúsið sjálft verðskuldar ekki. Þarna eru árgangar af Armagnaki og Whiskíi allt aftur til áranna fyrir heimstyrjöld og þjónninn, sem byrjaði kvöldið með hroka og stælum, kom nú sterkur inn í kynningu sinni á guðaveigunum. Þó var það eins og síðasti lélegi brandarinn á þessu kvöldi að akkúrat þegar við dreypum á fyrsta sopanum hlammar sér niður, við hliðina á okkur, hópur drukkinna manna sem þurfti að ræða af ástríðu kosti, galla og möguleika sinna uppáhaldsliða í fótbolta. Og þvílíkur hávaði, hróp og köll og hlátrasköll. Við yfirgáfum staðinn og ætlum aldrei að koma aftur, þetta veitingahús er ekki heimsóknarinnar virði. Þjónusta, ef hægt er að nota það orð, er ekki til staðar og það hlýtur að varða við einhver lög að láta algerlega óhæfa unglinga sinna þessum verkþætti og rukka fullt gjald fyrir. Hereford er rándýrt veitingahús og álagningin á borðvínunum er með ólíkindum. Umhverfi er snyrtilegt þó innkoman á staðinn sé algert klúður. Leikskólaleikurinn með krossaspjöldin er kauðskur og ekki til þess fallinn að skapa stemmningu í upphafi kvöldverðar þó það sé eflaust tilgangurinn. Forsvarsmenn alþjóðlegu veitingakeðjunnar Hereford Steakhouse ættu að skella sér í dinner á Laugaveginn og láta svo loka staðnum í beinu framhaldi.

Þessi rýni birtist í Mannlífi júní ´06

A Hansen Hafnarfirði

Húsið sem kennt er við A Hansen í Hafnarfirði hefur gengið í gegnum mörg og ólík tímabil á langri ævi sinni, en það var byggt árið 1880. Ef timbrið gæti talað yrði frásögnin án efa býsna skrautleg. Í húsinu hefur ýmislegt verið brallað; bólstrun, sjoppa, leiktækjasalur, æfingaaðstaða fyrir hljómsveit og hljóðstúdíó, svo eitthvað sé talið af þeirri starfsemi sem átt hefur athvarf í þessu fornfræga húsi í gegnum tíðina. En síðustu 20 árin eða svo hefur þarna verið veitingahús á neðri hæð og pöbb á þeirri efri. Sá er reyndar alræmdur. Restaurantinn niðri hefur hins vegar haldið sínu í gegnum tíðina og þótt hann hafi ekki alltaf trónað á toppi vinsældarlistanna hefur maturinn jafnan þótt ágætur og sannarlega er þetta eini veitingastaðurinn í bænum sem stendur undir nafni. Svo hefur “limousine” verið til taks hin seinni ár og margir eiga ljúfar minningar frá rúntinum á leið í matinn. Ég ákvað að skella mér í steikarferð á þriðjudagskvöldi, vegna þess að ég hafði ekki komið lengi og líka vegna þess að ég hafði heyrt að enn hefðu orðið eigendaskipti með nýjum kokkum og öllu tilheyrandi.
Ekki hefur verið ráðist í neinar meiri háttar breytingar á húsnæðinu eða innréttingum og skrauti, enda kannski ekki ástæða til. Þó ber að fagna því að hinn kauðslegi sófi, sem tók á móti manni áður, er horfinn og í hans stað komin borð og stólar. Það sem það gat verið pínlegt að sitja í leðrinu og sötra fordrykk yfir matseðli meðan beðið var eftir borði, 80 sentimetra frá parinu sem var að klára eftirréttinn sinn. Nú er gestum, sem þurfa að hinkra, boðið upp á efri hæðina og þar í setukrók fjarri matargestum, eins og vera ber. Og svo er þessi fáránlega bensínstöð sem dómineraði allt útsýni horfin yfir móðuna miklu og nú er virkilega hægt að njóta þess að horfa út yfir miðbæinn og höfnina. En við vorum komin til að borða. Við smökkuðum nauta-carpatio í forrétt, snyrtilegt á diskinum en dálítið bragðdauft og óspennandi. Fyrsta bragð kvöldsins ætti að hrífa og auka á eftirvæntinguna en þetta naut gerði það tæplega. Þá tók við næstum klukkutíma löng bið sem var orðin undir það síðasta dálítið dularfull því við vorum einu gestirnir í salnum. En góðir hlutir gerast hægt. Plankasteikin hefur lengi verið tromp staðarins og svo er enn, að því er virðist. Nauta og lamba tvenna var frábær. Kjötið eldað af virðingu og meðlætið ferskt og örlítið svissað á pönnu. Sósan var alveg sérlega vel heppnuð og að sjálfsögðu var bökuð kartafla með þessu. Eikarplankinn gefur þessu öllu keim þótt ekki væri nema fyrir ilminn af honum og það hve sérstakt það er að borða mat af spýtu. Piparsteikin var ekki eins mögnuð en kannski var ég bara óheppinn með bita. Piparblandan á kjötinu var bragðgóð og piparsósan líka en einhverjar sinar voru að pirra mig í lundinni. Ef við hefðum ekki þurft að bíða svona lengi eftir aðalréttinum hefði ég beðið um nýja sneið. Meðlætið með þessari steik var einnig gott. Með þessu var drukkið ástralskt Rosemount Shiraz. Santa Digna Cabarnet Sauvignon frá Chile hafði þó verið pantað en reyndist ekki tiltækt. Alltaf þykir mér betra ef mér er sagt strax hvað af seðlinum er ófáanlegt svo ég sé ekki að láta mig langa í það sem ekki er til. Reyndar er tímabært fyrir staðinn að endurskoða bæði mat- og vínseðilinn. Þjónustan þetta kvöld var látlaus og allt umhverfi staðarins er þægilegt. Gamlar ljósmyndir af húsunum í bænum eru fallegar á veggjunum og undirstrika vel anda liðins tíma sem svífur dálítið yfir öllu á þessum snyrtilega veitingastað. Ef ég ætti að tína til kvörtunarspörð þá væri það helst að stöðugur umgangur fólks á pöbbinn illræmda á efri hæðinni er mjög truflandi fyrir þá ró sem ríkir í salnum niðri. Kannski væri hægt að breyta inngangi þannig að þessar tvær rekstrareiningar gætu þrifist í svona mikilli nálægð hvor við aðra. Ég gef staðnum 2 stjörnur.


Þessi rýni birtist í Mannlífi maí ´06

Þrír Frakkar

Á fyrstu hæð í íbúðarhúsi inni í miðjum Þingholtunum minnir aðkoman að Þremur Frökkum á suma þessa frægu litlu restauranta í stórborgum erlendis. En þar endar samlíkingin. Þegar inn er komið býðst gestum að setjast inn í lítið hliðarherbergi, hlýlegt og notalegt, eða út í sólskálann viðbyggða, kaldan og mötuneytislegan, auk salarins. Ég ákvað að láta þjóninn velja okkur stað og hún vísaði okkur hiklaust út í skálann, á agnarsmátt tveggja manna borð og mátti varla vera að því að hinkra á meðan við fengum okkur sæti. Svo, þegar stund var liðin án fordrykkja, kom önnur til að taka pöntun. Skrítið þetta að bjóða manni ekki strax drykk til að sötra yfir lestri. Reyndar var ekki til á barnum það sem talið var upp á seðli, hvorki fordrykkurinn sem okkur langaði í né vínið sem við völdum eftir þó nokkrar vangaveltur því seðillinn er fjölbreyttur. Sérvöldum vínum Úlfars sjálfs var lýst fyrir okkur sem annaðhvort alltof “sætum” eða alltof “súrum”, veit ekki hvort Úlfar er sammála því. Lauksúpan sem ég smakkaði fyrst þarf að hverfa strax af matseðli Þriggja Frakka, svo gjörsamlega misheppnuð sem hún var. Dökk og dimm voru orð sem komu í hugann meðan ég reyndi að krafla burtu öllu brauðinu sem hafði verið troðið ofan á í þeirri von að undir niðri leyndist næg súpa til að vera marktæk í smakkprófi. Smásletta var í botninum og laukdreggjarnar sem lágu þar í voru ofeldaðar og ansi legnar. Alls ekki nógu vandað og í raun algert klúður á stað sem hefur jafn gott orðspor og þessi. Sannarlega byrjaði þessi heimsókn ekki vel. Ég vildi fyrir alla muni prófa hvalkjöt áður en birgðir þrýtur og það býðst ekki lengur. Þrennskonar hráefni var borið á borð og auka hrúgurnar tvær voru hrár túnfiskur, ágætur, og reyktur lax sem á litla samleið með hvalkjötinu að “japönskum sið” sem ég hafði pantað. Hvalurinn sá var hreinasta sælgæti og ég undrast þá snilld að geta borið fram hrátt það sem búið er að geyma í frosti árum saman, gott ef ekki hartnær áratug, og það virkar svona ferskt. Aðalrétturinn skyldi vera fiskur í samræmi við orðsporið. Og núna vorum við að dansa. Það er fyrir þetta sem staðurinn er frægur. Við fengum alveg hreint frábærlega matreiddan karfa og skötusel, lystuga og spennandi rétti. En eins og þjónustan stuðaði okkur þá gerðu rifna kálið og forsoðnu kartöflurnar það líka. Nenna menn virkilega ekki að hafa fyrir því sem er hæglega helmingur þess réttar sem borinn er fram? Er það svo að matreiðslumönnum finnist einhver minnkun að því að skera ferskt grænmeti og útbúa sjálfir kartöflur sem hæfa matnum? Staður sem er eins umtalaður og þessi getur hvorki leyft sér að vera með kokka né framreiðslufólk sem sinnir sínu starfi með hálfum hug. Alveg er ég viss um að þegar meistarinn er sjálfur á vakt eru gestirnir ekki afgreiddir með því áhugaleysi sem við upplifðum þetta sunnudagskvöld. Breytir engu hvort fiskurinn var rétt eldaður eða ekki. Ætli maður að upplifa “the dining experience” hlýtur þjónusta, viðmót, umhverfi og stemmning að skipta jafnmiklu máli og maturinn. Sé eitthvert eitt þessara atriða ekki í lagi er upplifunin fyrir bí. Maður jafnvel sér eftir þeim peningum sem það kostar að borða á viðkomandi stað og kvöldinu sem átti að vera tilbreyting frá hversdagsleikanum. Þrír Frakkar fá tvær stjörnur fyrir hvalinn og fiskana, annað var ekki í lagi.

Þessi rýni birtist í Mannlífi apríl ´06

Humarhúsið

Í einu fallegasta húsinu í Bernhöftstorfunni er veitingastaðurinn Humarhúsið og hefur verið þar síðan 1995. Á þessum stað er farin dálítið önnur leið í innréttingum og skreytingum heldur en á hinum veitingastaðnum í torfunni því hér er það einfaldleikinn og smekkvísin sem ræður. Sami stíll er á humarhusid.is, góðri heimasíðu veitingastaðarins. Hreint og hlýlegt er það sem mætir manni en heldur þótti mér kynlegt að standa í anddyri og ræða við móttakarann handan við þykk, hálffrádregin gluggatjöldin sem skilja innganginn frá salnum, svolítið eins og ég væri að sníkja að fá að koma inn. Þegar inn er komið blasir við einstaklega aðlaðandi salur með snyrtilega dekkuðum borðum og fáum aukahlutum. Ég var á báðum áttum þegar þjónninn vísaði okkur til sætis við borð milli tveggja sem þegar voru setin í salnum. Rétt er að það komi fram að þetta var á mánudagskvöldi og það frekar rólegu. Þegar leið á kvöldið áttaði ég mig hinsvegar á því að þarna hafði reynslan ráðið og staðsetning valin af mjög ásettu ráði. Okkur sem þarna sátum á þremur borðum leið fljótlega eins og staðurinn væri þéttsetinn og allir gátu slakað á og átt samtöl. Ef lengra hefði verið milli borða hefðu allir verið að hvísla og pískra og hver heimsókn þjónsins hefði orðið pínlega áberandi í þögninni. Svo er á hreinu að þjónninn hafði betri yfirsýn á borðin svona þétt og gat sinnt öllum nánast í einu, ég þurfti aldrei að bíða eftir aðstoð, hún var alltaf komin á sömu stundu, tækni sem “yngri” þjónar mættu tileinka sér og þeir ófaglærðu munu sennilega aldrei fatta. Ef ég ætti að finna eitthvað að þjónustunni þetta kvöld þá væri það ef til vill að helsti styrkur Humarhússins er um leið þeirra eini veikleiki. Sömu aðilar hafa haldið um stjórnartaumana árum saman og þjónninn okkar þetta kvöld hefur unnið þarna frá upphafi. Um leið og þetta gefur til kynna mikinn stöðugleika er svolítið eins og maður sé kominn inná þeirra yfirráðarsvæði. Þjónninn þjónar ekki heldur gengur um beina. Hreint og beint en ópersónulega, og já, aftur hafði ég á tilfinningunni að ég væri svolítið eins og að sníkja. Ekki þó í fjárhagslegum skilningi því Humarhúsið er ekki ódýr staður. En að matnum; ég hef víða farið og borðað mikið og fjölbreytt en á Humarhúsinu gerðist það ótrúlega að tvisvar sama kvöldið smakkaði ég nokkuð sem ég hef aldrei smakkað áður. Hið fyrra var forréttur, önd með shiso, mango og lime, alveg ótrúlega góður réttur. Tilfinningin, þó ekki bragðið, var eins og þegar maður setti edik í fyrsta sinn í munninn, alveg gersamlega framandi. Ég smakkaði líka humarsúpuna, einhverja þá bestu sem ég hef fengið hér á landi, en öndin sló allt út. Það yrði erfitt að toppa þessa byrjun. Humarveisla var í sigtinu og boðið var uppá “brot af því besta”, þrennskonar humar, grillaðan, með gratin sósu og kanadískan, sem er aðeins grófari en okkar. Á matseðli er talið upp salat og hvítlaukur sem meðlæti en á diskinum var auk þessa, stórundarleg hrúga af litlum, ljósleitum kúlum. Allskonar hugsanir kviknuðu um hvað þetta gæti eiginlega verið, hrogn einhvers óþekkts stórfisks eða stökkbreytt kúlulaga risahrísgrjón. Einn möguleiki var að bakatil í eldhúsinu væri illa launaður starfskraftur af erlendu bergi brotinn sem sæti daglangt og rúllaði kúlurnar úr deigi á borðinu, með fingurgómunum. Hann væri meira að segja orðinn svo fær í þessu að hann gæti rúllað tíu í einu, eina undir hverjum fingri. Á diskunum tveimur væri þá um eitt og hálft dagsverk af kúlum. Þessar kúlur voru hið síðara af því sem ég hef aldrei smakkað fyrr en þarna. Ég fékk að vita að þetta fyrirbæri er Israelskt couscous, passar ótrúlega vel með humrinum. Eins og ég óttaðist þá náði aðalrétturinn þó engan veginn að toppa forréttina og mér finnst ég þurfi að heimsækja Humarhúsið aftur vegna þess að þeir eiga að geta gert betur, humarinn er jú þeirra aðalmál. Með þessu drukkum við Alsace Pinot Gris, og Reserve Personelle er unaðslegt hvítvín, gullið og ilmandi. Kláruðum vínið á efri hæðinni þar sem er betristofa og þótt við værum ein þar var kveikt á öllum kertunum. Það gaf hlýlegt og rómantískt yfirbragð. Heldur þykir mér Humarhúsið vera í dýrari kantinum en það fylgir kannski því að vera í Torfunni. Jafngóðan mat og faglegri þjónustu er hægt að fá víða í borginni fyrir minni pening. Ég gef staðnum 3 stjörnur.


Þessi rýni birtist í Mannlífi mars ´06

Á þjóðvegi númer eitt

Skrapp í helgarfrí aðra helgina í janúar og keyrði norður í land. Þjóðvegur númer eitt er einn af mínum uppáhaldsvegum og ég nýt þess að fara hann. Ætla mér rúman tíma svo ég þurfi ekki að aka í hendingskasti og geti stoppað á völdum stöðum á leiðinni til að borða. Því miður fer þeim fækkandi stöðunum við þennan veg sem enn geta talist boðlegir og sumir eru dottnir svo út af sakramentinu að það hvarflar ekki að manni að koma þar við, ekki einu sinni í neyð. Einkagöngin undir Hvalfjörðinn gerðu út um Botnsskála og Ferstiklu og ég verð að viðurkenna að ég hef aðeins einu sinni farið fjörðinn eftir að þau voru opnuð. Þá gekk ég upp með Glym, alveg uppá topp, í mestu rigningu sem ég hef upplifað og var með nesti. Það reyndi því ekki á þjóðvegasjoppuskortinn í það sinn.
En nú var semsagt ákveðið að stoppa í Borgarnesi og borða kvöldmat.
Hyrnan varð fyrir valinu því þar höfum við borðað áður. Mér er hinsvegar til efs að við munum borða þar aftur eftir þessa máltíð og móttökurnar sem okkar litla fjölskylda fékk. Þrátt fyrir fámenni í salnum virtist allt vera í stresskasti og steik innan við afgreiðsluborðið og eftir að börnin höfðu lagt fram óskir sínar vildi ég spyrja frúna hvor kjúklingurinn í hitakassanum væri réttur dagsins og hvor væri hinn grillaði af matseðlinum því alls ekki var hægt að sjá það af útliti þeirra. “Bíddu” var svarið og ég vona að maddaman hafi haldið að ég væri næsti kúnni í röðinni og ekki í fylgd með þeim sem hún var að afgreiða þá stundina. Hún virtist átta sig og eftir að kjúllavafinn var leystur fengu allir afgreiðslu. Samlokurnar sem börnin vonuðust til að fá voru hinsvegar ekkert líkar þeim snifsum sem bornar voru á borð. Frosið brauð þarf að rista til að fela upprunann og svo má gjarnan vera eitthvað á milli sneiðanna til að þær standist inntökupróf í samlokuherdeildina. Annars er bara um að ræða tvær brauðsneiðar, aðra oná hinni. Um frönsku kartöflurnar ætla ég, kurteisinnar vegna, ekki að fjölyrða en það er ekki svona flókið mál að hita feiti og dýfa einhverju í hana svo vel fari. Sá kjúllinn sem kallaður var réttur dagsins var svosem ekkert óæti en ósköp var hann óspennandi greyið og sveppasósan/súpan sem drekkti öllu öðru á diskinum kom í veg fyrir að hægt væri að mynda sér skoðun á því. Við vorum ekki södd þegar við lögðum í ferðina aftur en nokkrum þúsundköllunum léttari. Baula datt út í fyrra, með svipaða falleinkunn og Hyrnan nú, svo við fórum þar hjá án frekari tafa. Framundan var dalurinn endalausi og enginn áningarstaður fyrr en í Hrútafirði því ég hef ekki séð lífsmark í Hreðavatnsskála síðan Sálin spilaði þar síðast.
Á Brú var í nokkur ár hægt að fá íslenska kjötsúpu sem aðeins átti sinn líka í kjötsúpunni á Möðruvöllum. Á báðum þessum stöðum var skylda að stoppa og borða súpuna góðu. Nú standa Möðruvellir einir eftir sem framverðir íslensku kjötsúpunnar því bragðlausa skolvatnið með kjöt tuttlunum sem í boði er innst í Hrútafirðinum stendur ekki lengur undir þeirri sæmdarnafngift. Svo er algerlega ólíðandi að þreytulegt og pirrað afgreiðslufólkið segi við þá fjóra sem bíða í röðinni að nú sé því miður búið að loka og þeir fái því ekki afgreiðslu. Staðurinn lokar auðvitað á áður tilgreindum tíma en þeir sem þegar eru komnir inn, og búnir að velja það af matseðlinum sem þeir treysta sér í, hljóta að eiga einhvern rétt á lágmarks kurteisi. Þar fækkaði stoppustöðunum um einn og ég er nokkuð viss um að þeir sem þarna voru reknir út koma aldrei aftur inn.
Það kvöldaði og því var ákveðið að prufa Staðarskála frekar á heimleiðinni að þessu sinni.
Ég veit ekki hvort það var hungrið eða hálkan sem olli óhappinu en á krossgötum Heggstaðarnes-afleggjarans misstum við stjórn á bílnum, þeyttumst 80 metra út af þjóðveginum og vorum aðeins hársbreidd frá banaslysi ofaní skurði. Hvorugur flutningabílstjóranna sem aðilar voru að atvikinu stoppaði til að athuga með þennan bíl sem svo skyndilega hlýtur að hafa horfið þeim sjónum. Hestamenn á vígalegum Nissan Pickup gerðu það hinsvegar og þakka ég þeim hér með aftur fyrir þá hjálpsemi. Ég keyri sjálfur aldrei framhjá óhappi eða slysi nema gefa því gaum og kanna hvort hjálpar sé þörf.
Eftir þessar hremmingar hlakkaði okkur sannarlega til að komast á Blönduós og fá hressingu í hinum nýja og vel auglýsta Esso-skála, Blöndu-skálinn sem er sunnan brúar er sennilega hættur starfsemi, allavega sjaldan hreifingu þar að sjá. Esso-skálinn nýi og flotti lokar klukkan 10 á kvöldin sama hvort er virkur dagur eða helgi. Vonbrigði! Og það í bæjarfélagi sem stendur á því fastar en fótunum að eiga allt sitt undir þjónustu við gest og gangandi. Ef þetta er til marks um hina ríku þjónustulund Blönduósinga þá verð ég ekki hissa þegar þeir færa þjóðveginn upp að Svínavatni og umferð um bæinn leggst af með öllu. Þá fá Blönduósingar kannski frið til að hvíla sig, blessaðir. Fyrir nokkrum árum var enn hægt að fá að borða á hótelinu gengt bakaríinu í gamla bænum. Það, eins og svo margt annað á Blönduósi, er liðin tíð.
Helgin leið hratt og þjóðvegur númer eitt laðaði og lokkaði með sínum blindhæðum og einbreiðu brúm. Já vel á minnst, einbreiðar brýr!!! Hvað er málið með þær? Er virkilega svona dýrt og tæknilega flókið að útrýma þeim? Hafa göng gegnum hóla í afskekktum, fámennum byggðarlögum virkilega forgang framyfir fjölfarnasta þjóðveg landsins? Eða er hann útundan af því hann á sér engan héraðstalsmann á þinginu sem lobbíar fyrir hans hönd?
Staðarskáli á leiðinni heim og enginn gestur í salnum. Frábært, þá getur kokkurinn virkilega gefið sér tíma, vandað sig og náð að rétta svolítið hlut dreifbýlisins í þessari óformlegu veitingastaðakönnun helgarinnar.
Við drenginn sem þarna stóð vaktina vil ég bara segja eitt eftirá; ef það er svona svakalega leiðinlegt í vinnunni þá átt þú að fara að gera eitthvað annað við sjálfan þig, vinur, og sama gildir um stelpuna sem ráfaði um gólfið og þóttist vera að þjóna til borðs. Staðarskáli er óhreinn, óaðlaðandi og illa skipulagður subbustaður og hlandstækjan sem leggur upp stigann úr kjallaranum, er það fyrsta sem tekur á móti manni við innganginn. Þarna vinna krakkar sem hafa engan áhuga á neinu sem viðkemur matseld eða þjónustu. Maturinn á þessum stað er virkilega vondur, jafnvel allt að því ógeðslegur og salurinn sem manni er ætlað að sitja í á meðan maður reynir að blekkja ofan í sig viðbjóðinn hefur ekki verið ryksugaður eða þrifinn með öðrum hætti síðan áður en “number one” var lagður bundnu slitlagi. Ætli skyldustopp langferðabíla nái ekki að halda ósmekklegheitunum á lífi enn um sinn en aðrir ferðamenn, sérstaklega þeir svöngu, ættu að hraða sér framhjá.
Á heildina litið er metnaðarleysi og fákeppni það sem einkennir matarholurnar við þjóðveg númer eitt, vesturlandsveg. Engu skiptir í mínum huga hvaða árstími er þegar þjónusta og matur er annarsvegar, ég borga sama uppsprengda verðið í janúar og júlí og geri kröfu um sömu gæði að vetri og sumri. Ef menn ætla hinsvegar að lifa á því að blekkja fávísa túrista á sumrin og segja svo við landsmenn að þeir geti étið það sem úti frýs hina níu mánuðina mega þeir mín vegna fara á hausinn. Ég mun framvegis smyrja mér nesti til að taka með í ferðina þegar ég ek þennan tiltekna hluta míns ástsæla þjóðvegar númer eitt.

Rossopomodoro

Fyrstu kynni gera oft út um frekara samband og því ber að vanda sig þegar maður hittir ókunnuga eða ef maður er ókunnugur sjálfur. Þegar við komum inn á Rossopomodoro við Laugaveg renndum við blint í sjóinn, vissum bara að hér var ítalskt veitingahús og að þetta var í húsinu sem brann. Einstaklega vel hefur tekist til með lagfæringu á rýminu og salurinn er bjartur og aðlaðandi. Snaggaralegur töffari (með mynd af bílnum í vasanum?) fylgdi okkur innst í salinn og benti svo á stað, þremur borðum frá; “er þetta ekki fínt”, beið ekki á meðan við settumst og bauð okkur ekki fordrykk. Sá yrti ekki á okkur aftur þetta kvöld. Við færðum okkur skömmu síðar því þó staðurinn væri tómur var óþægilegur erill þarna innst, af starfsfólki sem greinilega var búið með vaktina sína og var að taka á móti vinum og ættingum. Þegar stelpan kom svo loks til að sinna okkur voru liðnar um tuttugu mínutur frá því við komum inn og fordrykkurinn því ekki lengur á dagskrá, best að vinda sér beint í matinn. Hún vissi lítið sem ekkert um réttina á seðlinum og forrétturinn, sem var að hennar sögn djúpsteiktir ostar, reyndist vera djúpsteikt pizzadeig af ýmsum sortum. Reyndar fann ég svo mozzarellastangir þarna innanum en þær voru alveg eins og þessar sem maður kaupir í Nóatúni og hitar sjálfur. Tómatmaukið sem klínt var ofaná deigbollurnar var lítið krydduð púrra og megnaði ekki að gera úr þessu sæmilegan forrétt. Kokkurinn á frívaktinni stóð reyndar upp frá gestum sínum til að færa okkur Parmesan ost og til að útskýra fyrir okkur hvað það var sem við vorum að borða. Eins og vitneskjan um að bollurnar væru týpískar fyrir suður Ítalíu myndu gera þær betri í okkar munni. Hann kom reyndar aftur skömmu síðar til að taka leifarnar af borðinu því ekki voru þjónarnir að sinna okkur. Pizza Vesuvio, “eldfjall sem bragð er að”, og pasta með úrvali sjávarrétta skyldu vera aðalrétturinn. Það fyrrnefnda er hveitipönnukökusamloka með salami og osti, eingöngu, tómatarnir fjarverandi, og hið síðarnefnda er hrúga af einskonar breiðu tagliatelli með nokkrum sjávarskordýrum, tómatana fann ég ekki heldur þar. Báðir réttirnir voru bragðlausir og einstaklega óspennandi, en voru valdir í samráði við stelpuna sem lýsandi fyrir eldhúsið á staðnum. Ekki ristir það djúpt. Vinur minn sem dvaldi langdvölum á Ítalíu, m.a. í Napólí, kannast ekki við þessa matargerð sem suður-Ítalska. Vínseðilinn er sannarlega Ítalskur og Cabernet Sauvignon/Negroamaro blandan sem varð fyrir valinu er sérlega gott vín. Kaffi og “meðví” í innri sal hefði hugsanlega dottið inn ef staffið, og sá sólbekkjabrúni, hefði ekki líka verið búið að hreiðra um sig þar. Fengum að vita á leiðinni út hann væri eigandinn og fannst okkur það með ólíkindum. Umhverfi Rossopomodoro er huggulegt, maturinn ekki góður, eiginlega hvorki “fugl né fiskur” og ef þjónustan væri yfirhöfuð til staðar myndi hún hafa fengið umsögn hér.
Ég gef staðnum eina stjörnu.


Þessi rýni birtist í Mannlífi febrúar ´06

Austur Indía Fjelagið

Einn er sá veitingastaður sem ber höfuð og herðar yfir aðra hér í höfuðborginni. Á Austur Indía-fjelaginu við Hverfisgötu eru menn ekkert að þykjast. Þar er ekki íburðarmikil og ofhlaðin innrétting sem stelur athyglinni frá matnum. Þar er ekki hávær og pirrandi tónlist sem truflar upplifunina. Þar eru ekki ágengir og klaufalegir þjónar sem bera með sér að hafa ekki hlotið tilsögn. Nei, þar er ekkert af framantöldu sem þó prýðir svo marga klassaveitingastaði í Reykjavík. Á Austur Indía-fjelaginu er einföld, látlaus innrétting sem ber framandi menningarheimi fagurt vitni. Þar er lágstemmd seiðandi tónlist sem greinilega er ekki vestur-evrópsk. Og þar starfar besti þjónn á íslandi í dag, Manoj að nafni. Maturinn sem boðið er uppá er indverskur með stóru i-i, og það er nákvæmlega sama hvað pantað er af seðlinum. Hver einasti réttur, eins ólíkir og þeir eru, er eftirminnilegt ferðalag um bragðlaukaheima.
Þeir sem koma í fyrsta sinn á þennan stað ættu ef til vill að láta Manoj velja fyrir sig, eftir samtal, hann er naskur á þarfir og væntingar og vill ráðleggja fólki til að heimsóknin heppnist sem best. Hægt er að fá matinn kryddaðan eftir smekk, frá “mild “og til “ a la cusine” sem er þó ekki nema fyrir innvígða með reynslu af sterkum mat. En ekki er allt fengið með því að hafa matinn of sterkan. Fyrir allmörgum árum síðan varð ég vitni að því er Íslendingur með gorgeir ætlaði að gera sig breiðan á indverskum veitingastað í London. Hann pantaði Vindaloo og heimtaði að það yrði ekki einhver túrista afgreiðsla á þeirri matseld. Hann var svo borinn út af sjúkraliðum, blóðugur um kjaftinn bæð’og trýn og ég held hann hafi skammast sín...
Kryddin á Austur Indía-fjelaginu eru látin spila saman í karríhljómsveitinni. Það getur verið milt kammerverk fyrir smærri hljómsveit eða kraftmikil hetjusinfónía fyrir stórsveit sem borin er fram á sjóðheitu, snarkandi laukbeði beint úr Tandoori ofninum. Kjúklingur, lamb og svín er hráefnið í grunninn, nautakjötið víðs fjarri af eðlilegum ástæðum, en svo eru líka grænmetisréttir fyrir þá sem ekki vilja kjöt. Eingöngu eru notaðar kjúklingabringur, nema í Tandoori kjúllann sem er að venju borinn fram hálfur með beinunum, og lambið er ávallt fillet. Meðlæti er valið af hverjum og einum en þó fylgja öllum réttunum hvít grjón. Nan-brauð er hægt að fá “plain”, með hvítlauk, kókos, koriander eða masala kulcha sem er næstum eins og lítil pizza með smjöri og lauk. Brauðið og Raita jógúrtsósan er nauðsynlegt með þessum mat. Svo er úrval chutney sulta, sæt mangó sulta fer t.d.vel með mörgum réttanna og coriander chutney á vel við lambið. Matseðlinum var nýlega breytt, einstaka réttir af gamla seðlinum hafa vikið og aðrir komið í staðinn. Vinsælustu réttirnir sem hafa skapað húsinu nafn eru þó enn á sínum stað, ástæðulaust að breyta því sem virkar, og nýir spennandi réttir virka freistandi. Við fengum að prufa kjúkling lababdar og lamb kalimirch og við urðum ekki fyrir vonbrigðum. Reyndar hefur það aldrei gerst á þessum stað. Austur India-fjelagið er ekki óhóflega dýr staður, tveir réttir með meðlæti og bjór kosta 10 til 12.000. Maturinn, umhverfið og þjónustan er með því besta sem í boði er á Íslandi í dag og þó víðar væri leitað. Á Austur Indía-fjelagið fer ég aftur, og aftur, og aftur.

Þessi rýni birtist í Mannlífi janúar ´06

Lækjarbrekka

Einu sinni var....
Ævintýri byrja oft á “einu sinni var...”. Einhver hluti ævintýrsins “einu sinni var veitingahús sem hét Lækjarbrekka” hefur endað og erfitt að átta sig á hvað lifir eftir. Matreiðslumenn virðast allavega hafa snúið baki við þessum skáldskap því enginn lærður kokkur myndi voga sér að senda fram það sem borið var á borð fyrir okkur kvöldið sem við kíktum á Lækjarbrekku. Ekki er óþægilegt að ganga inn á staðinn, dálítið gamaldags en afslappað andrúm og svolítið ömmulegt. Og móttökur hlýlegar. Matseðillinn sem var lesinn á efri hæðinni þar sem er smá afdrep, leit vel út. Þó er áberandi hve mjög allt virðist gírað inná túrista. Og verðlagningin eftir því. Allstaðar eru styttur og myndir frá fyrri tíð, allt í takt nema Marylin Monroe-lampinn sem var eins og álfur út úr hól. Forréttir eru ýmiskonar og úrval af fjórum þótti freistandi. Þar til þeir voru smakkaðir. Ef þetta átti að vera einhver lókal brandari þá fullvissa ég aðstandendur veitingahússins um að mér þótti hann ekki fyndinn. Þetta var svosem ekki ólaglegt á að líta en það var alveg sama hvað maður setti upp í sig, það var sama ullarbragðið af öllu, nema humarsúpunni, sem borin var fram í litlu staupi, hún slapp fyrir horn. Restin, og þar með talin staka risarækjan stóðst ekki væntingar og greinilegt að frystirinn er besti vinur kokkanna á Lækjarbrekku. Aðalrétturinn var framundan og ekki ástæða til að örvænta svo snemma kvölds. En drottinn minn dýri, hvað fer eiginlega fram í eldhúsinu? Þegar beðið er um medium rare nautasteik, er ekki sanngjarnt að lufsan sem felur sig undir piparþrennunni sé svo grásteikt að gangstéttarhella lítur betur út. Og hvað var þetta með eina; “eina”, forsoðna kartöflu sem dansaði sóló við hliðina á ekki fersku, teningsskornu, beint úr frosti, grænmetinu sem var að leika meðlæti? Og svo átti að gera gott úr öllu saman með því að segjast ætla að skamma kokkinn. Ekki beint það sem verið var að kaupa. Lambakjöt og humar saman í kór, er kallað “Fjall og flói”, rammíslenskt nafn, og lambakjötið var sannarlega “rammíslenskt”. En ekki veit ég hvar og hvenær þeir létu lífið, humrarnir tveir sem fylgdu með, þeir voru í það minnsta ekki ferskir.
Eftir þessar hörmungar langaði okkur að yfirgefa staðinn en kurteis þjónn bauð okkur að setjast upp og þiggja eftirrétt í boði hússins. Og loksins tóks að gera eitthvað vel. Ís með kanil og volgar plómur var góð samsetning og hindberja og Tonka pot-de-créme (??) með vanillukexi var sömuleiðis gott. Réttirnir sem í boði eru á matseðlinum heita flottum nöfnum þar sem slegið er um sig á útlensku. Á ágætri heimasíðu veitingahússins má sjá myndir af sumum þessara rétta, en hafa ber í huga, að þú færð ekki endilega það sem sést á myndinni. Maturinn þetta kvöld var ekki boðlegur og engan vegin í samræmi við verðið sem er vel í hærri kantinum. Þjónarnir voru allir af vilja gerðir og vel meinandi en það dugar ekki til ef eldhúsið er komið framyfir síðasta söludag. Kannski ef þjónarnir væru klæddir upp í þjóðbúninga, peysuföt og sauðskinnskó, myndi þessi túrista fílingur skila sér betur og þá væri hægt að keyra ævintýrið eitthvað áfram. Stjörnugjöfin miðast við að ekkert veitingahús fá enga stjörnu. Lækjarbrekka fær eina stjörnu fyrir leikmynd og leikmuni og fyrir grafna lambið sem ég smakkaði á jólahlaðborðinu í fyrra.

Þessi rýni birtist í Mannlífi desember ´05

Argentína Steikhús

Það var með nokkrum kvíða að ég ákvað að Argentína Steikhús yrði fyrsta veitingahúsið sem ég gagnrýni í þessum nýja dálki sem nú er hleypt af stokkunum. Ég verð að rifja upp í stuttu máli hryllinginn sem var í gangi í síðustu heimsókn minni á þennan stað og óhjákvæmilega bera hann saman við þessa heimsókn. Þá var ég varaður við í anddyrinu, að von væri á stórum hópum fólks en hefði mig grunað hvað í vændum var hefði ég snarlega hætt við. Dauðadrukkið fólk með háreysti og tillitsleysi er ekki forskriftin að rómantísku kvöldi út að borða. Svo varð ég að þola það að fyrri þjónninn móðgaðist þegar ég bað hann að láta ekki líða fullan hálftíma á milli þessa sem hann sinnti mér og sást hann ekki meir það kvöld. Sá síðari sagði tæpitungulaust “ég má ekki vera að þessu, ég verð að drífa mig” þegar ég vildi panta vín. Þannig gekk þetta fyrir sig, ég bíðandi eftir að einhver sæi ástæðu til að sinna mér og svo við hjónin kallandi á hvert annað yfir borðið að reyna að heyra okkar eigið samtal fyrir fylliríissöngli og hrópum í árshátíðarhópunum sem voru greinilega ekki komnir á staðinn til að njóta matar og þjónustu.
Ég var því við öllu búinn. Og ekki byrjaði það vel, við stóðum dágóða stund í anddyrinu áður en nokkur kom til að taka á móti okkur. Salurinn var stappaður og augnablik þyrmdi yfir mig, var þetta þá alltaf svona hér á Argentínu, stórir hópar fólks afgreiddir á færibandi eins og í meðalmötuneyti í frystihúsi út á landi og skjótfenginn gróði tekinn framyfir orðstí eins virtasta veitingahúss borgarinnar. Ótti minn var ástæðulaus því í salnum voru útlendingar sem, ólíkt Íslendingum, geta farið margir saman út að borða án þess að það sé endilega ávísun á hörmungar. Vissulega heyrðist í þessu fólki en það voru ánægjuraddir og gleðin skein úr andlitum. Ég andaði léttar. Þjónninn sem tók á móti okkur kunni sitt fag og það átti eftir að sýna sig þegar leið á kvöldið að þar var á ferðinni einhver albesti þjónn sem við höfum fengið. Hann var alltaf tiltækur en aldrei áberandi, tilbúinn að ráðleggja glaður í bragði en blandaði sér aldrei í samtöl, var augljóslega skólagenginn og hafði metnað, þvílíkur munur. Á undan forréttunum kom hann með nautakarpachio í boði hússins, svona smá apperative, smart. Þrír forréttir voru smakkaðir, allir góðir, humarsúpan flauelismjúk og risarækjur á spjóti stinnar og alls ekki ofeldaðar. Parmaskinka með mozzarellaosti var sérlega vel heppnuð á nýbökuðum brauðbotni. Tónnin lagður strax mjög ákveðið af meisturunum í eldhúsinu, þar sem hjarta veitingahússins slær. Með þessu var drukkið hvítvín frá Chile, Torres Santa Digna Sauvignon Blanc, milt og bragðgott. Að sjálfsögðu var nautasteik aðalrétturinn. Ólíkur smekkur ákvarðaði steikinguna, frá rare til medium og í nautinu eru kokkar Argentínu sannarlega á heimavelli, hárrétt og vönduð vinnubrögð. Lundin var borin fram með bakaðri kartöflu og á borðinu voru sósur hússins. Ég var langt komin með steikina þegar ég áttaði mig á því að ég hafði ekki smakkað sósurnar. Kjötið var svo meirt og safaríkt að þær voru óþarfar. Og bragðið, maður lifandi, þvílíkt sælgæti. Með þessu var drukkið rauðvín frá Montes og það var með nokkru stolti sem þjónninn kynnti flöskuna. Þessi tiltekna Cabarnet/Carmanére blanda er sérstaklega átöppuð fyrir Argentína Steikhús. Gott vín sem passar vel við nautið.
Smá pása í koníakstofu og svo súkkulaðikaka. Hún var, eins og annað sem borið var á borð þetta kvöld, frábær. Bökuð að utan en með linu súkkulaðimauki í miðju, hvar var þessi kaka þegar maður átti afmælin hér forðum. Kaffi og meðví í lokin og niðurstaðan í heild; Argentína Steikhús hefur lengi verið eitt af virtustu veitingahúsum borgarinnar og ekki að ástæðulausu. Umhverfi og þjónusta með ágætum og maturinn algjört ævintýr. Vínlistinn áhugaverður og úrvalið af vindlum og koníaki til fyrirmyndar. Verðið er í hærri kantinum. Þess vegna gerir maður þá kröfu að hlutirnir séu alltaf í lagi, líka þegar hópar drukkinna Íslendinga ríða húsum og lemja hælum. En þetta kvöld var einstaklega vel heppnað og mun, þegar frá líður, geymast í minningunni löngu eftir að hið fyrra verður gleymt.

Þessi rýni birtist í Mannlífi nóvember ´05