Tuesday, November 28, 2006

Silfur, Hótel Borg

Eðlilega eru ekki allir á sama máli um ágæti breytinganna á veitingasalnum í Hótel Borg, en mér finnst þetta svolítið töff. Er reyndar enn á báðum áttum með betrekkið í Jóhannesarstofu en arininn þar er sannarlega “showpiece”. Og svo er hann opinn að aftan bæði og fram. Stærra eldrými er á þeirri hliðinni sem snýr inn í veitingasalinn og þar logaði bíómyndalegur “special effects” eldur úr gasi. Frekar flott. Hvorki eru myndir né annað skraut á veggjunum en ljósakrónurnar og sagaður steinninn á arninum og súlunum bæta þann skort fyllilega, jafnvel þó einhverjir mæri Indiana Jones propsið sem hafði hangið þarna áratugum saman og safnað ryki. Frétti reyndar að til stæði að koma því dóti öllu saman fyrir í lobbíi hótelsins, svo ekki fer það langt. Betrekkið og steinninn eru síðan snilldarlega bergmáluð í borðhaldinu sem smádúkur undir köldum réttum og hnefastór platti undir heitum. Hipp og kúl.
Það var fjölmennt á Silfrinu þetta föstudagskvöld og ég skrifa kauðslegar móttökurnar við dyrnar á það. Ef þjóninn hinsvegar lætur alla hanga frammi á gangi í aulalegri bið í byrjun kvölds þá skora ég á Silfursmenn að laga þann þátt. Kannski væri ráð að hafa “butler” í anddyrinu til að taka á móti gestum. Það væri flott. Ef til vill komum við bara inn um bakdyrnar án þess að átta okkur á því, en þarna var samt áður gengið inn í hinn fornfræga Gyllta sal og síðar, til að komast á Skuggabarinn sáluga. Þangað inneftir var förinni þó ekki heitið að þessu sinni.
Á matseðlinum er gesturinn varaður við því að allir réttirnir séu “í forréttastíl” og sá varnagli er ekki sleginn að ástæðulausu. Ókunnugur gæti fornermerast þegar á borðið fara að streyma skammtar sem varla eru uppí nös á ketti og sumum gæti þótt verðlagið eftir því vera heldur í hærri kantinum. En þá er líka bara hálf sagan sögð. Eftir yfirlestur og samtal við þjón var ákveðið að fylgja meðmælunum á matseðlinum og fara í einskonar óvissuferð. Kokkarnir velja matinn, ég hef alltaf verið til í smá áhættu! Annar þjónn kom og bauð okkur að velja vín en spurði svo hvort við vildum treysta sér fyrir þeirri ákvörðun. Ég var efins en sló til, hafði enda enga ástæðu til að vantreysta þessum þjóni. Og vísast myndi hann vera miklu nær um hvað færi vel saman, matur og vín, í þessu ferðalagi sem til stóð. Svolítið varð ég hissa þegar hann birtist svo með kampavínsflösku, þær veigar skyldu fara saman með fyrstu forréttunum. En maður mótmælir ekki settum kúrs, skipstjórinn ræður. Heldur stóð þó tæpt að fyrsti rétturinn næði í restina á freiðinu, smá lögg var eftir svo það rétt slapp. Reyndar fannst mér pínulítið óþægilegt hve margir þjónar skiptust á að þjóna okkur, maður nær mikli minni contact við sinn. En þjónustan á Silfrinu er góð. Maturinn raðaðist á borðið og það fer ekki á milli mála að það er gaman í eldhúsinu. Ég hef sagt að fátt gleðji mig eins og þegar sést að einhver hefur vandað sig. Hver einasti réttur sem borinn var á borð þetta kvöld, og þeir voru margir, var listaverk. Allt spilaði saman hreinan hljóm, útlit, framsetning og bragð. Alltof langt mál væri að telja upp og meta hvern rétt fyrir sig svo ég læt nægja að segja; allir réttirnir voru frábærir, hver á sinn hátt og þeir voru allir skemmtilegir sem er ekki svo lítið afrek. Dúfan var sigurvegari kvöldsins í keppninni “besti rétturinn”. Vínin, hvítur þjóðverji í fyrri hálfleik og rauður fransmaður í þeim síðari, pössuðu alveg ótrúlega vel við hinn fjölbreytta matseðil. Velti samt fyrir mér, af og til, þessu kampavíni - var ekki alveg að fatta það. Tónlistin, sem heyrðist ágætlega úr nýja hátalarkerfinu, var undarleg og nett stressandi en átti líklega að vera það. “Plötusnúður”, þið vitið, allir halda að það sé flott. “Live” klassa “act” hefði verið miklu meira kúl hér.

Silfrið heppnaðist og meir að segja frekar vel. Fullt hús stiga hefði steinlegið ef ekki hefði borið einn skugga á. Traust er dýrmætt og vandmeðfarið og mér þótti mitt örlítið misnotað að þessu sinni. Þótt tilefni borðhaldsins hafi verið að fagna áfanga efast ég um að við hefðum pantað 9000 króna kampavínsflösku með forréttunum hefðum við sjálf valið vínin. Þarna sætti þjónn lagi en hefði að sjálfsögðu átt að nefna við okkur að freiðið væri tvöfalt dýrara en venjuleg vínflaska. Þetta kom okkur í opna skjöldu þarna í restina og setti örlítið leiðan blett á annars fullkomna matarupplifun. Þó ég vilji halda að þetta hafi átt að vera liður í “special treatment”, sem ég reyndar borga svo sjálfur fyrir.
Silfrið verðskuldar háa einkunn, jafnvel fimm stjörnur en fær fjórar. Ég held einni eftir í pant fyrir flöskuna dýru. En kvöldið var vel heppnað.

Monday, November 13, 2006

Tapasbarinn, taka þrjú

Mér vitanlega er Tapasbarinn með opið eldhús lengst frameftir af veitingahúsum borgarinnar. Má vera að einhverjir hafi opið jafnlengi eða lengur og þigg ég ábendingar um þá staði, en þangað til ég veit betur hefur Tapasbarinn vinninginn. Afgreitt er eftir matseðli og full þjónusta er veitt þó komið sé fast að miðnætti. Hentar vel svona B fólki eins og mér. (A fólk fer í gang fyrir allar aldir og er komið í ró fljótlega eftir fréttir sjónvarpsins, B fólk sefur frameftir en er í stuði langt fram á kvöld).
Heimsóknin að þessu sinni var ekki síðri en sú næsta á undan, jafnvel betur heppnuð. Sami þjónn sinnti okkur mestanpart og hann sýndi enn að honum leiðist ekki í vinnunni. Stúlkurnar eru ekki eins ákveðnar en eru staðnum til sóma og prýði. Sú sem kom með fyrsta réttinn á borðið, kengúrukjöt, hefði þó að ósekju mátt presentera það af meiri spennu, eins framandi og það er. Þess í stað smellti hún diskunum á borðið og sagði lágt, um leið og hún snérist á hæl; "kengúra" ! Og þegar ég kváði sagði hún aðeins hærra "KENGÚRA" ! Ekki orð um eldunaraðferð eða meðlæti. Engin mystík.
Þetta var eina atriði kvöldsins sem hægt er að gagnrýna með þykkju, allt annað var frábært og þjónninn góði kom strax oní kengúruna með annan rétt sem hann fylgdi úr hlaði með lýsingum sem gerðu hann freystandi og spennandi (þ.e. réttinn). Sama vín var drukkið og í síðustu heimsókn og fer það vel með fjölbreyttum réttunum. Við völdum samsettan seðil þar sem ákveðnir eru tveir réttir en kokkarnir ráða þremur. Allir réttirnir voru bragðgóðir og vandaðir og við fengum að vita um innihald og aðferðir. Kengúran, sem kom fyrst, var frábær og eins var humarinn góður. Sístur var nýr hörpudisksréttur en trúlega var hráefninu um að kenna því sultaðir tómatarnir sem fiskurinn hvíldi á voru bragðgóðir.

Fyrir utan opnunartímann þá hefur tapasbarinn margt annað sem freystar endurkomu. Góður, fjölbreyttur matur, hlýleg og persónuleg þjónusta og skemmtilega "útlenskt" umhverfi, svolítið hávært og greinilega gaman á öllum borðum.

101 hótel

Þess er ekki langt að bíða að hér birtist rýni á Apótekið, en þangað til langar mig að fara nokkrum orðum um stað sem við heimsóttum eftir að máltíðinni lauk. Við kíktum inn á 101 hótel og ætluðum bara í einn "Irish", (fyrir svefninn)! Ekki málið "gjöriðisvovel" og allt það. Settumst við skemmtilegt útsýni innst í salnum (ég þurfti reyndar að standa aftur upp og fara á barinn til að panta). Eftir smástund komu drykkirnir og litu vel út í háum glösunum, þrjár kaffibaunir ofaná rjómanum. Lykta létt af og fá sér svo sopa... en viti menn... þá voru öll ljósin kveikt og rödd, með áberandi hreim, kallaði hátt og ákveðið: "nú'r búnn a loka!!!".

Ég á ekki orð.

Kannski hefði ég átt að hunskast til að hlýða þegar einn þjónninn skipaði mér að fara oní kjallara til að "klára" drykkinnn sem ég var ekki byrjaður á, en mér þótti það lítið spennandi.

Nei... ég fór bara út.

Á heimleiðinni fékk ég hinsvegar, góðan "Irish" eins og alltaf á Rósenberg .

Og fékk að klár'ann.......!

Indian Mango

Loksins komst ég til að prófa þennan umtalaða stað eftir að hafa gert 4 tilraunir áður. Ég kom tvisvar að lokuðum dyrum, þarna er víst ekki opið á sunnudögum, og svo var lokað í lengri tíma í byrjun ársins af ástæðum sem mér eru ekki kunnar. Tvisvar var svo fullt útúr dyrum að ekki var hægt að fá borð en í þetta sinn var aðeins setið við tvö borð. Gestum átti reyndar eftir að fjölga þegar leið á kvöldið. Niðurstaða heimsóknarinnar er í sem stystu máli; “I don´t get it !!”.

Maturinn sem við fengum var ekki það góður að hann standi undir orðsporinu, reyndar voru allir réttirnir fimm nánast eins útlítandi og keimlíkir á bragðið. Svona sósujukk er hægt að kaupa í flestum betri matvöruverslunum á landinu og bæta svo sjálfur kjötinu útí, fyrir miklu minni pening. Fátt sem minnir á hefðbundið Indverskt eldhús í matargerðinni enda var Goa portúgölsk nýlenda til lengri tíma og flest sem þaðan kemur undir sterkum áhrifum af fyrrum herraþjóðinni. Ágæt heimasíða ferðamálaráðs héraðsins, www.goatourism.org, er upplýsandi og fróðleg um menninguna og matinn eins og hann er þar ...

Inngangur veitingahússins er þannig staðsettur að gestir ganga eiginlega ofaní og yfir þá sem fyrir eru og þjónninn þarf að fara allan salinn á enda til að veita móttöku. Þjónustan var tvískipt, ung stúlka sem virtist ekki skilja neitt tungumál en skrifaði þó í gríð og erg niður allt sem við sögðum og eldri maður, afar kurteis, sem greip inní þegar virtist stefna í óefni. Allt of mörgum borðum hefur verið komið fyrir í þessum litla kjallara svo þeir sem ganga um beina eiga fullt í fangi með að troðast hjá, virkar klaufskt og skapar óþarfa spennu. Grjóthrúgan í miðjum salnum hefði kannski getað róað stemmninguna eitthvað niður en það var því miður skrúfað fyrir hið fengsjúíska vatnsgutl á meðan við vorum á staðnum ef þetta er þá yfirhöfuð gosbrunnur.

Stundum gerist það að veitingastaður verður vinsæll bara afþví bara. Svo eru aðrir staðir sem slá í gegn vegna þess að maturinn þar er góður, þjónustan elskuleg, umhverfið þægilegt og verðið hóflegt. Á Indian mangó er maturinn ekki vondur, þjónustan ekki fráhrindandi, umhverfið ekki beint óþægilegt þó það sé svolítið ofhlaðið húsgögnum og verðið á viðurgjörningnum er ekki óhóflega uppsprengt en einhvernveginn langar mig samt ekki þangað aftur ...

Rýni þessi birtist í Mannlífi, september ´06

Brekka, Hrísey

Hrísey! Einangrunarstöð fyrir innflutt gæludýr. Galloway nautabúskapur á áttunda og níunda áratug síðustu aldar. Sjálfstæðisyfirlýsing endurnýjuð árlega. Hellulagðar götur. Dráttavélar. Alli Bergdal, Hallgrímur Helga og að sjálfsögðu; ... Árni Tryggva. Þessi næststærsta eyja landsins býr yfir galdri sem ég hef ekki kynnst eins áþreifanlega annarstaðar. Tíminn er ekki til eins og hann þekkist á meginlandinu og þegar ég spurði Nestorinn hvort hann vissi hvað klukkan væri spurði hann mig hvort ég vissi hvaða dagur væri. Allt tempo er hægara og allir eru ekkert að flýta sér.
Í rúma tvo áratugi hefur veitingahúsið Brekka verið rekið í eyjunni og varð frægt fyrir nautasteikurnar sem ekki fengust annarstaðar. Mér þótti það reyndar alltaf skondin einangrun því svo tók maður kjötið með sér tilbaka innvortis og enginn gerði athugasemd við það. En einangruninni hefur verið aflétt og eru hálfskoskar beljur nú víða á landinu. Brekka er þó enn á sínum stað í reisulegu húsi sem á sínum tíma var eitt stærsta hús eyjunnar. Saga hússins er samofin sögu plássins alveg frá því það var byggt með handafli á árunum 1932-34 en það gerði Tryggvi Jóhannson, faðir Árna leikara. Á heimasíðu veitingastaðarins, www.brekkahrisey.is má lesa sögu hússins auk matseðla og annars fróðleiks. Veitingastaðurinn er opinn yfir sumartímann og opnaður sérstaklega fyrir hópa á öðrum tíma ársins. Gisting er í boði og er verðið hóflegt. Miklu styttri skreppur er út í eyju en mætti halda, kannski eru allar gubbuferðirnar í Herjólfi svona sterkar í í minningunni að ef maður heyrir orðin ferja og eyja í sömu andránni hrökkva allar varnir í gang. En óttinn er ástæðulaus því ferðin er stutt og skipið þægilegt. Nærsveitamenn hafa þarna skemmtilegan valkost í veitingahúsaflórunni við Eyjafjörð.
Matseðillinn er fjölbreyttur og er plankasteikin líklega þekktust. Piparsteik og kjúklinga-bringa með quacemole sósu eru einnig í boði af kjöti og svo eru fjórir fiskréttir á sérréttaseðli. Samlokur, hamborgarar og panini með pepperoni eða skinku, pizzur með óvenjulegu áleggi og úrval baksturs, kanilsnúðar, kleinur og rabbabarakaka með rjóma. Sá sem finnur ekki eitthvað sem hann langar í af seðlinum er einfaldlega ekki svangur. Plankasteikin er annaðhvort lamba rib-eye eða nautalund og smakkaði ég lundina. Greinilegt var að kjötið hafði verið meðhöndlað af kunnáttumanni því það var svo meirt að það bráðnaði í munninum. Steikingin var nákvæmlega eins og um var beðið og stenst þessi steik fyllilega samanburð við það sem best gerist í höfuðborginni. Saltfiskkókossteik á kartöflumauki með sætri plómusósu er góður réttur og óvenjulegur. Humarsúpan á undan var með örlitlum koníakstón og var flauelsmjúk og bragðgóð. Svolítill galsi er í pizzunum á Brekku og eiga þær allar sameiginlegt að álegg er ekki sparað og ekki heldur ostur. Kjúklingapizza með rauðlauk, fetaosti og jalapeno er góð og einnig hvítlaukspizzan með osti og grænum pipar. Stúlkurnar sem ganga um beina í Brekku eru úr röðum heimamanna, þær eru brosmildar með ríka þjónustulund og hafa þægilega nærveru. Súkkulaðikakan, sem við fengum á eftir, lokaði máltíðinni fullkomlega og það var varla hægt að finna pláss fyrir einn “irish”. Það tókst þó og ekki sé ég eftir því. Þarna fékk ég eitthvert besta írska kaffi sem ég hef fengið ofan Ártúnsbrekku.
Gott útsýni er uppá meginlandið, heim að Árskógssandi og Dalvík og inn eftir Svarfaðardal og afar róandi var að fylgjast með þokunni læðast niður hlíðar fjallana á Tröllaskaga, næstum eins og að horfa á málningu þorna. Já, tíminn er sannarlega afstæður. Ég gef Brekku þrjár stjörnur og mæli með því að fólk prófi helgarferð í Hrísey.

Rýni þessi birtist, lítillega breytt, í Mannlífi, september ´06. Hér gefur að líta "orginalinn".

Nings, Stórhöfða

Kínamatur er góður, reyndar misgóður eftir veitingastöðum, en sjaldan vondur. Nokkrir staðir bjóða austurlenska rétti í höfuðborginni og eru þeir eins misjafnir og þeir eru margir. Nings hefur gert út á hollustuna í sinni matargerð og jafnan skartað fegurðardísum til að vekja athygli á veitingastöðunum sem eru orðnir þrír í borginni. Kúnninn getur valið að borða á staðnum, taka með eða láta senda sér matinn. Á Stórhöfða er bjartur og þrifalegur staður sem býður fjóra rétti úr hitaborði auk sérréttaseðils, sushi og sérstakra heilsubakka fyrir þá sem eru að passa línurnar. Hitaborðið í hádeginu hefur sloppið fyrir horn nokkrum sinnum en líka verið óspennandi í hin skiptin. Einhvernvegin þarf þessi matur að vera nýeldaður til að vera virkilega góður. Datt niður á hádegistilboð, í grænmetis- og heilsukafla matseðilsins, steiktar eggjanúðlur með kjúkling og grænmeti, og þann rétt panta ég örugglega aftur. Svo spillir nú ekki að stúlkurnar í afgreiðslunni eru bráðhuggulegar.

Hrútafjörðurinn

"Þættinum hefur borist bréf" og "fjölmargir hafa haft samband við undirritaðan" eru frasar sem margir muna úr gömlu Gufunni. Ekki get ég státað af fjöldanum en er afar þakklátur þeim tryggu lesendum sem gefa mér feedback á mín fátæklegu skrif. Því er ekki að neita að haft hefur verið samband vegna skrifa minna um veitingaskálana tvo við Hrútafjörð, reyndar ekki við mig persónulega. Ég vil endilega ítreka það sem áður hefur komið fram að ekkert sem ég birti hér, eða er birt eftir mig annarsstaðar, fer frá mér fyrr en eftir mikla yfirlegu. Ég stend fyllilega við hvert einasta orð sem ég skrifa og þeir sem kjósa að taka gagnrýni minni persónulega gera það alveg á eigin forsendum og ábyrgð. Það er ekki markmið hjá mér að vega að mönnum á persónulegum nótum enda myndi slíkt gjaldfella fullkomlega mín skrif. Ég einsetti mér strax í upphafi gagnrýnisferils míns að vera heiðarlegur og einlægur og skrifa jafnt um það sem vel er gert og það sem betur má fara. Einstaka sinnum hefur þó gengið svo gjörsamlega fram af mér að ég hef þurft að eiga það við samvisku mína hvort ég yfirhöfuð ætti að skrifa nokkuð um viðkomandi, hvort viðkomandi væri þess virði að frá honum væri sagt. Í nær öllum tilfellum hef ég ákveðið að rétt væri að lesendur fengju að vita um ósómann. Eins vil ég að þeir sömu lesendur fái fréttir af þeim sem eru að gera vel.
Hvorugur veitingaskálinn við Hrútafjörð er að gera vel. Þjónustulund er þeim ókunnugt hugtak og vandvirkni í eldamennsku er nokkuð sem er greinilega allt of mikið vesen. Almenn kurteisi og hlýlegt viðmót getur gert heilmikið fyrir veitingastað sem er á hverfanda hveli en rekstraraðilar skálanna tveggja kjósa að uppáleggja sínu fólki hortugheit og fruntagang í samskiptum við ferðamenn. Ekki svo að skilja að ég hafi eingöngu mína eigin reynslu að styðjast við heldur varð ég líka vitni að samtölum starfsfólks og gesta meðan ég átti minn stutta stans. Þrifnaði er stórkostlega ábótavant á báðum stöðunum þó keyri um þverbak á öðrum þeirra. Hlandstækja, er orðið sem ég skrifaði og enn hefur mér ekki komið nákvæmara orð til hugar. Því skrifa ég aftur hér; það var svo megn hlandstækja, sem tók á móti okkur við innganginn, að strax þar hefðum við átt að hætta við. Um það sem á eftir fylgdi má lesa á öðrum stað hér á síðunni. (archives, janúar ´06 -"Á þjóðvegi númer eitt"). Engin afsökun þykir mér í því að búið sé að ákveða að færa "number one", þannig að hann muni í framtíðinni liggja útmeð firðinum vestanmegin og við hið nýja vegstæði verði reistur skáli sem leysa muni núverandi stað af hólmi. Má þá alls ekki þrífa þennan og viðhalda honum þangað til? Spyr sá sem á að skilja peningana sína eftir þar. Veitingastaðir og skálar "útá landi" lúta, hvað sem þeim finnst sjálfum um það, sömu lögmálum og staðir í þéttbýli. Eða ættu í það minnsta að gera það. Vondur matur, hrokafull og heimóttarleg þjónusta og almenn óþrif eru ekki góð meðmæli með neinum veitingastað, hvar sem hann er á landinu. Gagnrýni er sett fram til ábendingar, "að rýna til gagns", jafnt fyrir rekstraraðila og viðskiptavini þeirra.

Tapas barinn, taka tvö

Skrapp á Tapas barinn í gærkvöldi. Var seint á ferð og flestir staðir búnir að loka eldhúsum sínum, en ekki þessi. Síðast þegar ég datt inn þarna prufaði ég 7 rétta óvissuferð og var sáttur en ekki meira en svo. Eftir gott samtal við ungan þjón, sem tók yfir afgreiðsluna sem stúlka heldur áhugalaus um þessa gesti sem voru að mæta á staðinn svona seint hafði byrjað á, var ákveðið að láta kokkinn ráða 5 smáréttum. Þjónnin var vel kunnugur vínseðli hússins og gaf álit og góð ráð. Fyrir valinu varð Sonoma, Pinot Noir frá Napa dalnum í sunny California, gott vín með þessum mat, bragðmikið en létt og alls ekki frekt. Réttirnir voru skemmtilega ólíkir hver öðrum en allir ágætir. Sístur var saltfiskur í bragðgóðri, tómatlagaðri sósu með ætiþistlum en sennilega hefur hráefnið ekki verið eins gott og það gerist best. Ætla að prófa þennan rétt aftur síðar og vona að fiskurinn sjálfur verði betri þá því sósan smakkaðist vel. Beikonvafðar döðlur og hörpuskel á spjóti er ágætur réttur og einnig nautakjöt í teriyaki marineringu. Kjúklingur á salati með Alioli var mjög góður en bestur var humarinn. Þeir Tapasmenn rista honum blóðörn og því er auðvelt að borða hann, enginn hvítlauks og olíu subbuskapur, bara stinga honum í munninn og njóta. Frábær réttur.
Umhverfi Tapas barsins er þægilegt, innréttað og skreytt í spönskum/miðjarðarhafs stíl og langur barinn setur sterkan svip á innkomuna. Innri salur er í boði og þar hef ég setið með hópi fólks á árshátíð sem var vel heppnuð. Þjónninn þetta kvöld var kurteis og lipur og vel heima í því sem er í boði, þægilega öruggur á sínum heimavelli. Maturinn var góður og verðið sanngjarnt. Það var gaman að detta þarna inn seint á þriðjudagskvöldi.